14.12.1948
Neðri deild: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

99. mál, skattgreiðsla Eimskipafélag Íslands

Frsm. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 198, um skattgreiðslu h/f Eimskipafélags Íslands, er í raun og veru gamall gestur hér í hv. d. og á Alþ. Með l. nr. 33 frá 7. maí 1928 var Eimskip veitt skattfrelsi og þá fyrir tvö ár, 1929 og 1930, þó þannig, að það greiði útsvar til Reykjavíkur, 5% af nettó-ágóða. Síðan hafa l. þessi ávallt verið framlengd fyrir 2 ár í senn, nú síðast með l. nr. 76 5. júní 1947 fyrir árin 1947 og 1948.

Eimskip hefur varið öllu fé, sem því hefur hlotnazt, til samgöngumála, fyrst og fremst til þess nú siðast að láta smíða 4 stór og fullkomin skip. Eitt þeirra, ms. Goðafoss, er komið í notkun, annað, m.s. Dettifoss, verður fullsmiðað í næsta mánuði, hið þriðja verður sjósett 5. næsta mánaðar og hið fjórða á næsta ári. Auk þessa hefur félagið lagt fram stórfé til stuðnings flugmálum landsins. Þar hefur það lagt fram hlutafé til Flugfélags Íslands að upphæð kr. 1.500.000.00 og veitt sama félagi lán að upphæð kr. 3.500.000.00, eða samtals kr. 5.000.000.00.

Með þessum ráðstöfunum til almenningsheilla hefur félagið notað að fullu allt handbært fé sitt, sem ekki er bundið fast í rekstri félagsins.

Þrátt fyrir nokkra hækkun nýlega á flutningsgjöldum á vörum í Ameríkusiglingum eru flutningsgjöld fyrir matvöru svo lág, að flutningar þessir bera sig ekki. Meðan stríðið stóð var mögulegt að vinna þetta upp með hærri flutningsgjöldum á öðrum vörum, en nú er hvort tveggja, að innflutningur slíkra vara hefur minnkað' að miklum mun, og að því er snertir flutninga þeirra frá Evrópu, hafa nú útlend félög hafið hér mjög tilfinnanlega samkeppni við Eimskip. En þau félög hafa mjög miklu ódýrari rekstur á sínum skipum, þar sem sérstaklega kaup skipshafna er miklu. lægra en Eimskip borgar á sínum skipum.

Á síðari tímum hefur orðið mjög tilfinnanlegt rekstrartap á eigin skipum Eimskip, t.d.

árið 1947 .................... kr. 3.521.223:70

árið 1946 .................... kr. 1.715.178.54

árið 1945 ................ ... kr. 3.154.386.98 eða samtals síðustu 3 reikningsárin eftir að stríðinu lauk kr. 8.390.799.22.

Ég hef aðeins drepið hér á einstök atriði, ég tel ekki ástæðu til þess við þessa umr. að fara neitt ýtarlega út í þetta mál. Það er líka svo þrautrætt hér á hæstv. Alþ. og allri þjóðinni eiginlega svo kunnugt um þetta fyrirtæki. En ég vona, að þetta frv. mæti velvilja og skilningi hér í hv. d. og það fái fljóta og góða afgreiðslu.