14.12.1948
Neðri deild: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

99. mál, skattgreiðsla Eimskipafélag Íslands

Frsm. (Hallgrímur Benediktsson):

Hv. 2. þm. Reykv. kom hér með nokkrar aths. í sambandi við þessi tilmæli, en ég veit ekki, hvort ástæða er til að ræða það frekar á þessu stigi, því að mér skildist, að hv. þm. vildi gjarna ræða þetta frekar í fjhn., og mundi ég sízt hafa á móti því. En ekki get ég látið þess ógetið, að mér fannst hv. 2. þm. Reykv. tala af miklum ókunnugleika um þetta fyrirtæki og afstöðuna í heild, því að það hefur nú verið þannig með þetta félag frá því fyrsta, að ég veit ekki betur en það hafi hér um bil í einu og öllu farið eftir vilja hverrar þeirrar ríkisstj., sem setið hefur að völdum, og lagt áherzlu á það að reyna að leysa þau vandkvæði og vandræði, sem hafa verið á ýmsum tímabilum. T.d. á árunum þegar félagið var stofnað var það rekið með svo nánu sambandi við ríkisstj. sem nokkurt félag gat verið rekið. Og ég vil halda því fram, að ef fara ætti út í þá sálma að draga þetta út í tölur og samanburð, mundi þetta koma enn skýrar í ljós, því að allt þetta stríð hefur félagið bókstaflega í samráði við ríkisstj., fyrrv. og núv., reynt að haga þessu eins og það var forsvaranlegast.

Annars ætla ég ekki að segja meira um þetta á þessu stigi málsins. Ég hef sízt á móti því, að þetta verði athugað betur. Annars eru, meðnm. hér til staðar, og láta þeir kannske orð falla um það, hvernig þeir líta á þetta, t.d. hv. form.