17.12.1948
Neðri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

93. mál, tollskrá o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er stórmál, sem í raun og veru hefði átt að ræða ýtarlega, en ég mun geyma það vegna þess, hvað mikið liggur fyrir nú. Þetta er framlenging á ýmsum af þeim tollum og álögum, sem var bætt við í árslok síðast. Þá var því mjög ákveðið lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að þessi hækkun á vörumagnstolli og verðtolli, sem fólst í þessum l. þá, væri aðeins til bráðabirgða, sérstakar ráðstafanir, sem gerðar væru í sambandi við það að lækka dýrtíðina og samtímis þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar gagnvart kaupgreiðslu í landinu. Átti þetta aðeins að vera fórn, sem menn tækju á sig um nokkurra mánaða skeið til að fá dýrtíðina minnkaða. Við sósíalistar vorum andvígir þessari hækkun. Nú sýnir það sig eins og oft áður í sambandi við álögur, sem samþ. eru á Alþ., að þótt það eigi fyrst að heita til bráðabirgða, þá koma síðar fram till. frá ríkisstj. að gera þetta fastan tekjustofn. Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í þetta, það er öllum hv. þm. kunnugt. Við vorum á móti þessu máli í fyrra, og eftir allar þær hækkanir, sem till. eru komnar um í sambandi við annað mál frá fjhn., er enn þá meiri ástæðs til að standa nú á móti þessum tollaálögum. Það er hvort sem er sýnt, að með því að hlaða þannig hverri byrðinni á aðra ofan kemur að því, að burðarþolið brestur hjá almenningi. Ég mun því greiða atkv. móti þessu frv.