04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er nokkuð erfitt að átta sig á því, hver er afstaða hv. þm. Siglf., sem talaði hér fyrir hönd Sósfl. í þessu máli. Ýmist var hann með ásakanir gagnvart mér, að mér virtist, um málefnahnupl, þar sem ég notaði aðstöðu mína til þess að ná till., sem hann hefði unnið að í mþn., eða hann talar um, hve nauðsynlegt sé að koma fram efni þessa frv., og endar svo með því að skora á mig að beita mér fyrir því í mínum flokki, að þessu máli, sem hér liggur fyrir, verði hraðað í gegnum þingið. Það þarf sannarlega engrar hvatningar við af hans hálfu, til þess að Sjálfstfl. hraði afgreiðslu þessa máls á þingi. En hv. þm. Siglf. byrjaði á að segja, að efni þessa frv. muni vera komið frá einum starfsmanni á bæjarskrifstofunum, sem mun vera hagfræðingur bæjarins. Hv. þm. segir, að unnið hafi verið að þessu máli á skrifstofum starfsmanna bæjarins. Þessi hagfræðingur hefur nú aldrei minnzt á þetta mál einu orði við mig, og ég aldrei rætt það við hann. Og að þetta sé hnupl frá hv. þm. Siglf., af því að þetta sé till., sem hann hafi borið fram í mþn., það er bara hlægilegt. Þetta mál var rætt ýtarlega á landsfundi sjálfstæðismanna á Akureyri í sumar, og var þar gerð sérstök ályktun um þetta mál. Og það er fjarri lagi, þegar hv. þm. Siglf. eignar sér þessa hugmynd, af því að hann hafi borið þetta mál fyrst fram í mþn. í skattamálum.

Varðandi það, að heildarundirbúningur undir breyt. á skattal. sé á leiðinni, sem hv. þm. Siglf. var að tala um, þá er þetta gömul og klassísk mótbára gegn umbótum á löggjöf. Maður hefur enga tryggingu fyrir því, að heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni verði komið í kring á þessu þingi. Þar koma vafalaust fram mörg ágreiningsmál, og mjög mikil hætta er á því, að allmikinn tíma þurfi til þess að afgreiða þau mál. Það er þess vegna fullkomin ástæða til þess að bera þetta frv. fram og hraða því, því að þetta mál, sem frv. er um, þolir enga bið, að létta þessari miklu skattabyrði af þeim mönnum, verkamönnum og öðrum efnaminni borgurum, sem leggja mikið á sig til þess að koma upp sínum eigin íbúðum, en standa frammi fyrir því nú að þurfa að selja húsin vegna skattinnheimtu, ef ekki verður breytt. l. þar um. Ég þekki mörg dæmi þess úr þingsögunni, að ýmsum umbótamálum hefur verið komið fyrir kattarnef einmitt á þeim grundvelli, að vísað hefur verið til þess, að heildarendurskoðun sé að fara fram á viðkomandi lagabálki, og á þeim grundvelli lagzt á móti málum. Á fyrsta þingi, sem ég átti sæti á, flutti ég frv. um opinberan ákæranda. En með tilvísun til heildarendurskoðunar á tilteknum l. — eins og hv. þm. Siglf. var að minnast á í sambandi við þetta frv. — var tafið fyrir því máli þing eftir þing. En sú heildarendurskoðun er ekki komin fram enn, eftir 14 ár, sem liðin eru síðan ég bar tilgreint frv. fram. Ég skal nú ekkert um það segja, hvort endurskoðun skattal. verður lokið fljótlega eða ekki. Allt er í óvissu um það, að mér virðist. Og ég vil ekki, að þessu máli, sem hér liggur fyrir, verði frestað, þangað til sú endurskoðun kemur til endanlegrar afgreiðslu hér.

Hv. þm. Siglf. notaði svo tækifærið til ásakana á niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur og á mig. Annars vegar sagði hann, að niðurjöfnunarnefndin gengi fram á ófyrirleitinn hátt í því að skattpína þessa menn, sem með þessu frv. á að koma til hjálpar, og mér skildist, að hann teldi, að innheimtuaðgerðir mínar væru af svipuðu tagi. En í þessu frv. felst engin ásökun á neinn skattstjóra eða skattanefnd. Ég álít, að þessir aðilar telji sig bundna að lögum við að fjalla um þessi mál eins og gert hefur verið. Og skattstjórinn í Reykjavík taldi mjög æskilegt að fá þetta frv. samþ., til þess að skattyfirvöldin í Reykjavík hefðu heimild til að veita þessum mönnum, sem byggja sínar eigin íbúðir á þann hátt, sem hér er greint, ívilnanir í skatti, því að þeir, sem við skattamál fást, vita bezt, hve þetta kemur illa við menn. En hins vegar er ekki lögfestur útsvarsstigi, sem niðurjöfnunarn. skuli fara eftir, og hafa þær því frjálsar hendur þannig, að þeim er heimilt að taka tillit til þess, að ætlazt er til þess af löggjafanum, að þeim mönnum sé hlíft við þungbærum greiðslum til hins opinbera, sem eru að koma upp eigin íbúðum og leggja vinnu sína í það. En að hv. þm. Siglf. talar um, að niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur gangi lengra en góðu hófi gegnir og á ófyrirleitinn hátt fram í útsvarsinnheimtu af þessum mönnum, það hygg ég að stafi af því, að hann hafi ekki sett sig inn í þetta. Niðurjöfnunarn. Reykjavíkur hefur einmitt séð þá nauðsyn, sem á því er að ívilna þessum mönnum, sem með eigin vinnu hafa unnið að því að koma upp sínum eigin íbúðum, og tekið mjög mikið tillit til þess, þegar um slíkt hefur verið að ræða. Þessar ásakanir hv. þm. Siglf. í garð niðurjöfnunarn. Reykjavíkur eru því fleipur eitt og fjarstæða. Hann segir, að menn séu varnarlausir gagnvart þessum yfirgangi niðurjöfnunarn. Reykjavíkur. En ég veit nú ekki annað en að tveir aðilar geti breytt ákvörðunum niðurjöfnunarn. Reykjavíkur, bæði yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd. Og ef menn telja sig órétti beitta af niðurjöfnunarn. Reykjavíkur, þá er hægt að reyna, hvort ekki sé hægt að fá lagfæringu á því og réttingu mála á þessum tveimur stöðum.

Um innheimtuaðgerðir mínar sem borgarstjóra í Reykjavík skal ég ekki ræða hér. En ég ætla, að þær séu ekki harðgerðari gagnvart borgurunum, en innheimtuaðgerðir hv, þm. Siglf., þegar hann var bæjarstjóri á Siglufirði og hafði svipað hlutverk með höndum.

Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál, og vænti þess, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu á hæstv. Alþ.