04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta frv. þetta fara svo fram hjá mér við 1. umr., að ég ekki láti í ljós ánægju mína yfir því, að það er fram komið. Ég ætla ekki að deila um aðdraganda að flutningi þess hér í þinginu. Hann skiptir ekki svo miklu máli frá mínum bæjardyrum séð. Aðalatriðið er, að hér er frv., sem á að fyrirbyggja órétt, sem hafður hefur verið í frammi gagnvart þeim mörgu þjóðfélagsþegnum, sem reynt hafa með eigin vinnu að byggja sér þak yfir höfuðið. Ég hygg, að það þurfi ekki mörg orð til að útskýra, að þessir menn hafa verið sérstaklega skattpíndir og að nauðsynlegt er, að því verði af þeim létt. Og mér skilst, að þetta frv. hafi þá möguleika inni að halda. Þess vegna fagna ég því, að það er komið fram.

En ég vil, til athugunar fyrir þá n., sem fær þetta frv. til meðferðar, benda á, hvort ekki sé rétt að gera það, sem hv. þm. Siglf. benti á, að taka útsvörin líka með, því að jafnvel þótt svo væri, að niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur, eins og hv. borgarstjórinn í Reykjavík, þm. Snæf., lýsti yfir, hefði verið mjög sanngjörn í þessu tilliti í niðurjöfnun útsvara á menn að þessu sinni, þá er það ekki tryggt, að það sé annars staðar eins, og ekki er tryggt heldur, að svo verði í niðurjöfnunarn. Reykjavíkur til eilífðar, heldur geti komið verri menn sem þar ráði síðar. Þess vegna álít ég, að það eigi að ákveða með l., að niðurjöfnunarnefndir skuli taka ákveðið tillit til þess, hliðstætt því sem þetta frv. fer fram á viðkomandi skattinum, að menn þeir, sem hér ræðir um, verði ekki heldur píndir með álagningu. útsvara — Sömuleiðis álít ég rétt fyrir n., sem fær mál þetta til meðferðar, að athuga, hvort ekki muni vera rétt, að þeim, sem orðið hafa fyrir þessum órétti í skattgreiðslu á stríðsárunum, verði endurgreitt það, sem af þeim hefur verið tekið þá og 2. gr. frv. fjallar um endurgreiðslu, á viðkomandi tekjuskatti álögðum 1948.