10.12.1948
Neðri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. hefur orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, eins og fram kemur á þskj. 178. Við 1. umr. kom fram það sjónarmið, að erfitt mundi reynast að framkvæma þá skattaívilnun, sem frv. gerir ráð fyrir, og kvaddi því fjhn. skattstjóra á sinn fund og leitaði álits hans. Var álit hans á þá leið, að hann taldi, að ekki þyrfti að kvíða því, að erfitt mundi reynast að framkvæma ákvæði frv. Hann hélt því og fram, að af hálfu skattstofunnar hefði verið vægilega metinn sá eignarauki, sem hefur orðið vegna eigin vinnu við íbúðir, en allt um það hlýtur hann þó að koma hart niður á þeim, sem vinna mikið við hús sin sjálfir. Frv. ráðgerir, að skattaívilnanir verði í samræmi við aukavinnuna, og leggur n. til, að það verði samþ., að fengnu áliti skattstjóra, en þó er eitt atriði, sem n. vildi taka fram og flytur brtt. um á þskj. 178. Brtt. n. er þess eðlis, að ívilnun sú, sem frv. gerir ráð fyrir, falli niður að því leyti, sem vinnan kann að fást endurgreidd með söluhagnaði af íbúðinni skv. e-lið 7. gr., en 7. gr. skattal. fjallar um skattskyldar tekjur, og hljóðar e-liðurinn þannig: „Ágóði af sölu á fasteign eða lausafé, enda þótt salan falli ekki undir atvinnurekstur skattgreiðanda, ef ætla má, að hann hafi keypt eignina eða öðlazt hana á annan hátt í því skyni að selja hana aftur með ágóða og hún hefur verið í eign hans skemur en 5 ár, ef um fasteign er að ræða, en annars skemur en 3 ár. Þó má draga frá þessum ágóða skaða, sem kynni að hafa orðið á sams konar sölu á árinu. Efni málsins er því það, að ef einhver aðili hefur fengið ívilnun og selur svo íbúð sína með hagnaði innan 5 ára, þá fellur ívilnunin niður, að svo miklu leyti sem vinnan hefur fengizt endurgreidd með skattaívilnunum. Nm. hafa óbundnar hendur um að fylgja öðrum brtt., en leggja til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef gert grein fyrir.