13.12.1948
Neðri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér skilst við fljóta athugun, að sumar af þeim brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. flytur hér, varði efni, sem n. hefur rætt. Það var t.d. rætt í n., hvort l. ættu að verka til 1944, en í frv. er miðað við árið 1947, og var þá haft í huga, að framtölin mundu hafa verið ýtarlegri 1947, en áður vegna eignakönnunarinnar. Menn töldu ekki ástæðu til að ganga lengra. Einhver takmörk verður ætið að setja, og það er erfitt að ákveða, hvar þau skuli vera. Hví að miða við árið 1944? Því þá ekki að fara lengra? N. ræddi þetta, og ég held, að það hafi verið álit hennar, að ekki væri ástæða til að fara lengra aftur, en gert er í frv.

Svo var það formsbreyting, að þessi skattaívilnanaákvæði komi aftan við 10. gr. í staðinn fyrir 9. gr. Þetta atriði bar ekki á góma í n., og mig furðar því á því, að hv. þm. skuli koma með það nú. Skattstjóri kom á fund n., og því var ekki hreyft, að allt væri ekki í lagi hvað formið snerti. Ég held því, að þetta sé óþarfi.

Þá var það þriðja atriðið, að ákvæði frv. um skattaívilnanir væru einnig látin ná til útsvaranna, er einnig hvíldu þungt á þeim gjaldendum, sem hér er um að ræða. Það er rétt, að þessu hefur verið haldið fram, og að því er ég held með nokkrum rétti. En niðurjöfnunarnefndirnar hafa aðra aðstöðu, en skattanefndirnar, sem eru skyldugar að leggja á. Ég held, þótt ég þori ekki að fullyrða það, að niðurjöfnunarnefndirnar hafi tekið tillit til þessara skattgreiðenda, og eftir að l. eru gengin í gildi, held ég, að þær muni ganga lengra í þeim efnum, en praxís hefur verið áður. Ég held því, að ekki sé þörf á þessari breytingu, enda óeðlilegt að taka þetta upp í tekjuskattslögin. Mér finnst því ekki ástæða til að samþ. þessar brtt.