15.12.1948
Efri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að frv. fari til n., og vildi ég því benda þeim nefndarmönnum, sem fá það til meðferðar, á viss atriði, sem ég tel, að gefa þurfi gaum.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að vinna, sem einstaklingar leggja fram utan reglulegs vinnutíma til þess að reisa sér íbúðir, verði ekki reiknuð þeim til skatts. Þessi ívilnun er sem sagt einskorðuð við það, að vinnan sé lögð fram við byggingar íbúðarhúsa. En hvernig er þá t.d. með vinnu, sem bændur leggja fram til að reisa fjárhús, fjós og geymslur, auk sinna venjulegu starfa? Ef vinna við íbúðarhús á að sleppa við skatt, þá virðist alveg eins rétt að ívilna þeim, sem reisa t.d. peningshús. Og sé svo, er þá ekki alveg hið sama að segja um jarðabætur eða t.d. mann, sem notar frístundir sínar til þess að byggja sér trillubát? Það eru ákaflega fljótandi takmörk þarna á milli og í rauninni ekki unnt að draga þau. Mþn. í skattamálum mun hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að meta bæri alla slíka vinnu nægt til tekna. Og ég vildi benda þeirri n., sem væntanlega fær þetta til meðferðar, á það, að þetta þarf hún að athuga vel, því að í skattamálum þarf að ríkja fullkomið réttlæti og eitt að ganga yfir alla.

Annað er það, sem ég vildi benda n. á líka. Því hefur verið bætt inn í frv. í Nd., af nefnd að ég ætla, að þessi ívilnun falli burt að því leyti, sem vinnan kunni að fást endurgreidd með söluhagnaði af íbúðinni. — Það munu nú koma í ljós erfiðleikar á þessu í framkvæmd. Segjum, að maður fari að vinna í frístundum við eigin íbúð og honum sé sleppt við að reikna þá vinnu til tekna. Svo líða 4 ár — ekki 5, sem tilskilin eru — og þá selur hann íbúðina, og er þá eigin vinna hans við að koma íbúðinni upp orðin skattskyld. En þá verður erfitt að áætla hana til tekna. Slík tilfelli mundu eðlilega verða mörg, og þegar ekki er metið í upphafi, hve framlögð vinna er mikil, mun reynast erfitt að gera það síðar. — Það gæti verið spursmál, hvort ekki væri rétt að áætla tekjuaukann strax, í því tilfelli að viðkomandi seldi hús sitt síðar, enda þótt hann væri ekki skattlagður af honum. — Þetta vildi ég sem sagt biðja n. að athuga.