24.02.1949
Efri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Sú skoðun kom fram í fjhn. yfirleitt, að það mál, sem hér er um að ræða, væri sanngirnismál, og þess vegna hefur n. lagt til, að frv. verði samþ. Hins vegar voru sumir nm. þeirrar skoðunar, að rétt væri, að viðaukatill. kæmu fram í þessu sambandi um atriði í framkvæmd skattalaganna, sem væru álíka áberandi ósanngjörn eins og það atriði, sem hér er leitazt við að leiðrétta með þessu frv. Ég geri ráð fyrir því, að vatill. komi fram um þetta. En af því að ég sé, að einn hv. nm., sem skrifaði undir nál. með fyrirvara, er veikur, þá mun sú till. að líkindum bíða til 3. umr. — Um það má náttúrlega deila, þegar breyt. eru gerðar á einstökum atriðum skattal., hversu sanngjörn þau eru, þegar litið er til annarra atriða, sem taka má til samanburðar. Á þetta hefur nokkuð verið bent, eins og það, að menn vinna fyrir sérstökum fjármunum í yfirvinnu eftir sinn vinnutíma og verja þeim fjármunum til að byggja sér hús, og það mætti segja, að sama ætti yfir þá menn að ganga eins og þá menn, sem byggja sjálfir yfir sig hús í sínum eftirvinnutíma. Ég segi fyrir mig, að ég tel þetta alls ekki fráleitt, og það er margt, sem mælir með því, að þarna geti líkt staðið á. En það er eins með þetta eins og fjölda margt annað í skattalögunum, að það er ómögulegt að setja undir hvern leka í þeim efnum. Þetta, sem hér er um að ræða í frv., er alveg tvímælalaust sanngirnisatriði og sérstaklega þegar litið er á það, hvernig árangur framkvæmdar skattalaganna verður í þessu efni, að maður, sem hefur notað sínar frístundir, sem hann kannske hefði ekki getað notað að öðru leyti sér til hagsmuna, hann notar þær til þess að byggja yfir sig hús, en þegar hann er búinn að koma húsinu upp, metur skatturinn þetta hús til svo eða svo mikils fjár og bætir þessu við tekjur mannsins — og hér er venjulega um fátæka menn að ræða — og þegar svo er komið, getur maðurinn ekki staðið í skilum með þennan skatt, sem lagður er á þessar auknu tekjur, vegna þess að hann hefur ekki unnið sér inn neinar tekjur til þess að greiða hann. Árangurinn verður svo sá, að maðurinn verður að selja húseignina, sem hann var að koma upp yfir sjálfan sig, til þess að geta svarað kröfum skattanefndar í þessu efni. Þetta er náttúrlega fráleitt, þegar litið er á húsnæðisvandræðin í landinu og hversu gífurleg þörf er á því í bæjum og hversu sérstaklega í Reykjavík er óskapleg þörf fyrir það, að menn geti fengið hús yfir höfuðið og þurfi ekki, eins og margir hverjir gera nú, að búa í þeim neyðaríbúðum, sem búið er í hér í bænum sums staðar. Þess vegna er það ekki neitt álitamál, að það á að gera þessa leiðréttingu á þessu, en leiðréttingu, sem er ekki nema á einum af mörgum agnúum skattalaganna, sem þyrfti að leiðrétta.