25.02.1949
Efri deild: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt var s.l. ár skipuð mþn. í skattamálum til þess að endurskoða skattalögin. N. þessi lauk störfum fyrir lok síðasta árs og skilaði til hæstv. ríkisstj. frv. um tekju- og eignarskatt. N. tók skattalögin til rækilegrar endurskoðunar, bæði í einstökum atriðum og í heild, og samdi nýtt frv. til skattal., þar sem hún lagði til þær breyt., er henni þóttu nauðsynlegar. Enn fremur athugaði n. nýmæli í skattalöggjöf annarra þjóða og tók afstöðu til þess, hvort þau mundu verða gagnleg hér. Ríkisstj. fékk svo frv. ásamt nál. til athugunar um síðustu áramót, og hefði ég talið æskilegast, að hún hefði lokið athugun sinni svo snemma, að hægt hefði verið að leggja frv. fyrir þetta þing og helzt að afgreiða það, því að þau skattal., sem nú gilda, eru mjög gölluð, auk þess, sem er alveg óþolandi, að ákvæði þeirra eru nú í mörgum einstökum lögum og fjölda reglugerða. Ástandið í þessum málum er sem sagt orðið svo, að það er ekki nema fyrir þá, sem kynna sér þessi mál sérstaklega, að fá yfir þau örugga heildaryfirsýn. Allur almenningur getur ekki verið viss um, hvað sé lög í skattamálunum, þótt slegið sé upp í skattalögunum, því að aldrei er að vita, nema einhvers staðar leynist einhver breyting, sem gerð hefur verið með öðrum lögum eða reglugerð. Ég veit, að hv. þm, sjá, að slíkt getur ekki gengið til lengdar, svo að hér verður fyrr en seinna að bæta úr. Ef hæstv. ríkisstj. hefði getað lokið athugun sinni á frv. mþn., svo að hægt hefði verið að leggja það fyrir þetta þing, þá mátti gera sér vonir um miklar umbætur, en því miður eru til þess litlar horfur, að málið fáist lagt svo snemma fyrir Alþingi, og veldur því, að uppi voru í mþn. veigamikil og viðkvæm ágreiningsatriði. Það tekur því ríkisstj. allmikinn tíma að athuga þau og reyna að ná samkomulagi um þau, þannig að nú lítur svo út, að vonlaust sé að afgreiða frv. á þessu þingi. Því virðist ekki um annað að ræða en reyna enn að sníða einstaka galla af skattal. í von um, að frv. um skattamálin í heild verði afgreitt á næsta þingi.

Eitt af atriðum þeim, sem mþn. athugaði, er það, sem þetta frv. fjallar um, og var n. á einu máli um það að skattleggja ekki tekjur af eigin vinnu við byggingu eigin íbúða. Mþn. lagði til að sníða þann ágalla af l., að greiddur væri skattur af slíkri vinnu, að vísu með öðrum hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir, og tel ég leið þá, sem mþn. vildi fara, æskilegri. Mér er hins vegar ljóst, að ef frv. er breytt hér nokkuð að ráði, þá er málinu stofnað í hættu, og vegna þess, að málið er að mínu áliti mjög gagnlegt og ekki ber mikið á milli þeirrar leiðar, sem frv. gerir ráð fyrir, og þeirrar, sem mþn. lagði til, þá vil ég ekki hreyfa breytingum, er snerta það ákvæði, er einkavinnuna áhrærir. Hins vegar er sá ágalli á frv., að ekki eru tekin inn í það nauðsynleg ákvæði, sem ætla mætti, að enginn ágreiningur væri um. Ég hreyfði þessu í allshn., en þar varð að ráði að hætta ekki á, að n. bæri fram brtt. við frv., en nm. hefðu óbundnar hendur um að flytja eða styðja brtt. Ég fyrir mitt leyti samþykkti þessa afgreiðslu málsins, en ég hef tilhneigingu til þess að nota fyrirvara minn og hreyfi hér vissum breytingum, en fer það varlega að hreyfa ekki nema einni till., sem ég tel öruggt, að enginn ágreiningur sé um og stofni því ekki málinu í hættu. Sú brtt., sem mér býr í hug, er í sambandi við e-lið 7. gr., sem mælir svo fyrir, að ef maður, sem hefur átt fasteign skemur en 5 ár, selur hana, þá skuli hann greiða tekjuskatt af söluverðinu fram yfir fasteignamat. Í ýmsum tilfellum getur þetta ákvæði valdið hinu mesta ranglæti, t.d. ef söluverðið er notað til þess að kaupa aðra fasteign. Maður, sem slík viðskipti gerir, þarf ekki að hagnast neitt, og því er ranglæti að láta hann greiða skatt af söluverðinu, en njóta engra fríðinda, ef hann kaupir aðra fasteign. Við skulum hugsa okkur, að einhver maður sé tilneyddur atvinnu sinnar vegna að flytja milli landshluta. Áður en hann flytur, selur hann eign sína á staðnum og verður að kaupa aðra á þeim stað, þar sem hann sezt að. Þessi maður er atvinnu sinnar vegna knúinn til þess að gera viðskipti, sem hann þarf ekkert að hagnast á, en greiðir hins vegar stórskatta vegna þeirra. Ég get bent á átakanlegt dæmi um þetta. Maður nokkur, sem mér er kunnugt um, átti fasteign hér í Reykjavík, en varð að flytja út á land vegna atvinnu þeirrar, sem hann stundaði. Hann seldi fasteign sína hér og keypti aðra úti á landi. Eignina, sem hann seldi, hafði hann átt í tæp 5 ár, og varð að greiða um 30.000 kr. í skatt, án þess að hafa grætt nokkuð á þessum viðskiptum, sem hann var neyddur til. Ég hef engan vitað verja þetta ranglæti og held, að menn séu yfirleitt sammála um, að nauðsynlegt sé að fá þetta leiðrétt og því fyrr því betra. Ég vil því leyfa mér að bera fram skriflega brtt. til leiðréttingar á þessu atriði. Brtt. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 2. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Við e-lið 7. gr. l. nr. 6 1935, um tekjuskatt og eignarskatt, bætist:

Nú selur skattþegn fasteign, sem hefur verið í eigu hans skemur en 5 ár, en kaupir aðra eða byggir hús áður en ár er liðið frá söludegi, og skal þá sölugróði ekki skattskyldur, ef hin keypta fasteign eða hið nýreista hús er að fasteignamati jafnhátt eða hærra hinu selda, en ef það er lægra að mati, skal sölugróðinn skattskyldur hlutfallslega.“

Með samþykkt þessarar brtt. fengist þó nokkur lagfæring á þessu ranglæti skattal. Ég hef sett í brtt. það ákvæði, að skatteftirgjöfin komi því aðeins til, að viðkomandi hafi keypt aðra fasteign, áður en ár er liðið frá því, að hin er seld. Þarna verða einhver takmörk að vera og er það auðvitað matsatriði, hve langur þessi tími á að vera, en hér tel ég, að farið sé hóflega í sakirnar. Ég tel tvímælalaust, að þessi brtt. sé til allmikilla bóta, þótt mér sé ljóst, að henni fylgi sá galli, að vegna mismunandi gangverðs fasteigna á ýmsum stöðum á landinu, geti orðið úr þessu nokkurt ósamræmi. En ranglætið verður aldrei læknað til fulls, og þetta tel ég helzta spor í rétta átt. Þessi till. er samin af mþn. í skattamálum, og var enginn ágreiningur um það í n. að hún væri til bóta, enda bráðnauðsynleg og vænti ég fulls skilnings hv. d. á nauðsyn þess, að till. verði samþ.