03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef litið svo á þetta frv., að grunntónn þess og megintilgangur væri sá að örva menn til vinnusemi og til þess að nota tómstundir sínar til gagnlegra og þjóðhagslegra starfa, með skattaívilnunum. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, þá er þessu frv. of þröngur stakkur skorinn, ef þeir einir eiga að fá þessa örvun, sem byggja hús, en ekki t.d. þeir, sem nota tómstundir sínar til þess að byggja bát, eða þeir, sem kaupa mann til að reisa fyrir sig hús, en vinna sjálfir að öðru í tómstundum sínum. Mér finnst því, að þetta frv. sé í rauninni aðeins svolitlar ranglætisfærikvíar, ef engar af þeim brtt., sem hér hafa komið fram, eiga að ná samþykki; en mér skildist á hæstv. ráðh., að hann væri á móti þeim. En þessar brtt. sýna einmitt ljóslega, hve ófullkomið frv. er; einn sér, að þessi breyting er nauðsynleg, annar hin. Mér dylst t.d. ekki, að ef brtt. hv. 7. landsk. yrði samþ., þá væri ráðin nokkur bót á frv. í samræmi við megintilgang þess og það yrði ofurlítið víðtækara. Sama gildir um brtt. á þskj. 403, að frv. nær betur tilgangi sínum og verður ofurlítið víðtækara, ef hún nær samþykki. Mér er t.d. kunnugt um, að vegna þess, hvernig þessum málum er háttað, þá er fjöldi bláfátækra barnamanna, sem þurfa að greiða straffskatt vegna þess, að þeir réðust í að koma sér upp húsi. Ég get nefnt t.d. tvo slíka menn á Ísafirði, sem þurfa að greiða 2 og 3 þús. kr. í straffskatt, af því að þeir höfðu unnið við hús sín í tómstundum.

En sé það rétt, eins og ég lít á, að frv. hafi þann tilgang að örva menn til þjóðnýtra starfa, en ekki eingöngu til húsbygginga, þá telst mér rétt að miða undanþágurnar við tekjur af aukavinnu alls verkafólks fyrst og fremst og allra láglaunamanna — og miða þá t.d. við 20–25 þús. kr. árslaun. Það er vitanlegt, að hagur slíks fólks er svo þröngur, að þar má ekkert af klípa.

Ég sé ekki, að löggjafinn geti leyft sér að gera upp á milli fólks. Og eigi að stíga sporið til nokkurrar bótar, þá er það fullkomið réttlætismál að færa mörkin svo út sem ég hef gert ráð fyrir í brtt. minni á þskj. 404. Og sama máli gegnir um hinar brtt. tvær: Að brtt. föllnum mundi ég þó eigi að síður fylgja frv. óbreyttu, þar sem það verður að teljast örlítið spor í réttlætisátt.