03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú orðið ljóst af umræðum, að allir þeir hv. þm., sem rætt hafa þetta mál, eru sammála um, að gildandi skattalög séu það ranglát, að ekki verði við unað — og það þótt þeir hafi allir staðið að því að semja lögin og viðhalda ranglætinu öll þau ár, sem síðan eru liðin. Það hefur nú verið sett milliþn. í þetta mál og hefur hún skilað áliti, en þó ekki fengizt samkomulag um þetta, enda þótt allir lýsi því yfir, að ástandið sé óviðunandi. Þeir hafa þannig lýst því yfir, að þeir séu á annarri skoðun, en þegar þeir settu lögin, sem hafa gengið það á rétt gjaldþegnanna, að sjálft Alþ. hefur orðið að gefa mönnum syndakvittanir fyrir lögbrot með eignakönnuninni á sínum tíma.

Nú er vitað, að í hvert sinn, sem lagðir hafa verið á nýir skattar, þá hafa ákvæðin, sem ekki höfðu gildi nema til eins árs, verið framlengd ár eftir ár — a.m.k. frá því 1942, er ég kom fyrst á þing, og það loforð hefur verið gersamlega brotið, að létta af skattabyrðinni, sem aðeins átti að leggja á til eins árs d senn. Það má því vera öllum ljóst, að það er bráðnauðsynlegt að framkalla umræður um breytingar á skattalöggjöfinni.

Frv. sjálft er ekki í aðalatriðum þess eðlis, sem hv. 3. landsk. vildi vera láta. Tilgangur þess er fyrst og fremst sá að bæta úr húsnæðisvandræðunum og fá menn til að beita sér við að koma upp yfir, sig þaki, það eitt út af fyrir sig réttlætir samþykkt þessa frv., þótt hún dragi svo á engan hátt úr nauðsyn þess, að lögin verði tekin til athugunar í heild.

Till. á þskj. 402 er í sjálfu sér fullkomið réttlætismál, en hún miðar að öðru en því, sem er höfðutilgangur frv., og getur því beðið heildarathugunar á lögunum, og ef til vill gæti það rekið á eftir þeirri athugun, ef till. yrði felld. Þess vegna mun ég ekki fylgja henni á þessu stigi og mun standa að frv. óbreyttu, þó að ég sé líka í rauninni sammála brtt. á þskj. 402. Sama er að segja um till. á þskj. 403. Þótt hún sé felld, þá tefur það ekkert fyrir því, að það takmark náist, sem ætlað er með sjálfu frv. En ég stóð nú aðallega upp vegna brtt. á þskj. 404. Mér skilst á flm., að meiningin sé að örva menn til að starfa lengur, en lögboðinn vinnutíma, og sé það rétt, þá skil ég ekki, að slík till. skuli koma fram frá manni, sem hefur verið sendur á þing af Alþfl., þar sem eitt meginbaráttumál hans hefur verið 8 st. vinnudagur. Ef flokkur hans telur nú þetta ranga stefnu, þá er hann eitthvað farinn út af línunni. — Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að 48 klst. á viku sé of skammur vinnutími. Og ég vil nú spyrja hv. þm.: Hefur hann gert sér ljóst, hvaða áhrif það gæti haft á atvinnulífið í landinu, ef till. hans yrði að lögum? Ég man vel, hvernig menn léku þann leik á sínum tíma, og þá einkum duglegustu mennirnir, að vinna á nóttunum vegna hins háa næturtaxta, en taka daginn til hvíldar, ég þekki fjölda vinnuflokka, sem gerðu þetta. Eftir að búið var að knýja fram átta stunda vinnudag almennt í landinu, kröfðust verkamenn í vegavinnu að fá að vinna 10 klukkutíma á dag og þá tvo tíma þar af með 50% álagi á kaupið. Ef þessi brtt. er því dulbúin krafa um að hækka alla vinnu í landinu um 50 til 100%, þá er ekki furða, þótt hv. 3. landsk. þm. beri hana fram. En það er áreiðanlegt, að ef komið er inn í skattal. því ákvæði, að öll vinna, sem unnin er eftir venjulegan vinnutíma, verði skattfrjáls, þá mundi fólkið hópast í þá vinnu, sem þannig væri höfð skattfrjáls, og keppast við að vinna í þeim flokkum, til þess að fá fyrst 50 til 100% álag á kaupið og síðan að sleppa við að greiða skatt af kaupinu. Ég veit ekki, hvort hv. 3. landsk. hefur gert sér ljóst, hvílíkt öngþveiti mundi geta skapazt í landinu við þetta og hvaða misrétti samþykkt hans till. mundi skapa í þjóðfélaginu, eins og hv. 1. þm. Eyf. minntist á, því að margir í þessu þjóðfélagi verða að jafnaði að vinna lengur en það, sem er venjulegur vinnudagur verkamanna í kaupstöðum. Ég vil benda á, að á stríðstímanum var af beinni nauðsyn tekið upp það ákvæði, að helmingur af áhættuþóknun sjómanna yrði skattfrjáls, og var það beinlínis vegna þess, að sjómenn vildu ekki hætta lífi sínu á hafinu, nema því aðeins að þeir fengju að njóta sjálfir einhvers af þeim launum, sem þeir fengju fyrir það starf sem áhættuþóknun, en það færi ekki allt í ríkissjóð. Það var fyrst í fyrra, að þessi fríðindi voru tekin aftur. Og við vitum, hve illa það hefur verið liðið. Og það hafa komið fram háværar raddir um það frá sjómönnum, að eina ráðið til þess að halda mönnum á sjó, sé að setja í löggjöfina, að nokkur hluti launa þeirra sé skattfrjáls. Og það var svo mikill þungi í þessu máli, að það varð að ganga inn á annað við sjómannastéttina, þegar þetta var afnumið í fyrra, sem vegið gæti upp á móti þeim fríðindum, sem var verið að taka af, nefnilega að gefa skattfrjálst það fæði, sem reiknað var sjómönnum til tekna. Það er síður en svo, að ég sjái eftir þessu. En ég er að benda á, hvernig þetta hefur þróazt í þjóðfélaginu. Nú er það vitanlegt, að undireins og þetta var gert í fyrra hér á Alþ., þá komu fram kröfur um það að láta þessi fríðindi ekki ná aðeins til sjómanna, heldur til allra, sem fengju frítt fæði. Það hefði þá náð til fjölda margra manna í landinu, sem hafa þau hlunnindi við sitt starf, en nokkur hluti launa þeirra er greiddur í peningum. En það var gengið á móti þessum kröfum um að láta þetta ákvæði gilda almennt, af því að þessi hv. d. skildi, hversu hættulega braut yrði farið út á, ef eftir þessum kröfum væri látið almennt. Og það er því áreiðanlegt, að ef samþ. væri brtt. á þskj. 404, þá hlyti ákvæði hennar að skapa hreint öngþveiti í þjóðfélaginu, — auk þess sem ómögulegt er að tryggja, að réttilega sé hægt að telja fram, hvað í þessum efnum væru aukatekjur, eins og talað er um hér, og hvað tekjur fyrir venjulega dagvinnu. Og þess vegna þyrfti líka enn fremur að ákveða nánar um það í sjálfri till., hvað væru lágtekjumenn — eins og það var verið að flokka það í þinginu í gær, hvað væru tignarmenn og hvað væru ekki tignarmenn. Mér finnst því ekki nokkur leið að samþ. þessa brtt., eins og hún liggur fyrir, og ég mun greiða atkvæði á móti henni. — Ég mun greiða atkvæði með frv., vegna þess að það er megintilgangur frv. að bæta úr aðkallandi þörf á húsnæði. Ég mun greiða atkv. á móti öllum öðrum brtt. einnig, vegna þess að þær eiga ekkert skylt við meginatriði málsins, þó að þær eigi fullkominn rétt á sér til þess að laga ákvæði skattal. En ef á að breyta skattal. í heild, þá eiga allir alþm. að hafa í sér þann manndóm að framkalla hér á þessu þingi breyt. á ákvæðum skattalaganna.