25.02.1949
Neðri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

128. mál, bæjarstjórn í Keflavík

Ólafur Thors:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í hv. d., vorum við báðir fjarstaddir, hæstv. viðskmrh. og ég, en við erum flm. frv. Hæstv. forseti lét það ekki valda því, að frv. kæmist ekki til umr. í d. Ég hafði ekki annað um þetta mál að segja efnislega en það, sem fram er tekið í grg. frv. Ég vil leyfa mér að þakka n. fyrir skjóta og góða afgreiðslu málsins. Ég hef átt viðræður við form. n. og frsm. um þær brtt., sem n. flytur við frv., og ég er efnislega samþykkur báðum þessum brtt. Ég hygg, að ég megi segja hið sama fyrir hönd meðflm. míns. Ég skal þó aðeins segja það sem mína persónulegu skoðun, að ég tel það orka tvímælis, að óhætt sé að staðhæfa, að lögsögn Keflavíkurflugvallarins falli eðlilegast undir sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Ég held, að ef til vill væri heppilegra, að væntanlegur bæjarfógeti í Keflavík hefði þessa lögsögn á hendi. Ég hef átt tal um þetta mál við sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu og lögreglustjórann í Keflavík. Með því að sýslumaðurinn telur fyrir sitt leyti æskilegt, að þetta verði óbreytt eins og það hefur verið fram að þessu, og núverandi lögreglustjóri í Keflavík, sem ætla má að verði bæjarfógeti þar, ef hann sækir um það, telur heldur ekki ástæðu til að keppa að þessu og einnig af því, að ég fann í n. vilja til hins sama að svo stöddu máli, þá sé ég ekki ástæðu til þess sem 1. flm. frv. að gera ágreining um þetta atriði, þó að ég finni ástæðu til að lýsa yfir þessari skoðun minni. Ég er þess vegna samþykkur báðum brtt. og endurtek þakkir mínar til n. fyrir skjóta og góða afgreiðslu málsins.