08.03.1949
Efri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

101. mál, sala landræmu úr Öskjuholtslandi

Frsm. minni hl. (Páll. Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess, að þegar þetta mál var til umr. í n., var 7. landsk. ekki viðstaddur og hefur þar af leiðandi ekki heyrt öll rök í málinu, þó að hann hafi síðar lýst sig samþykkan meiri hl.

Ég lít svo á, að þegar ráðstafa á landi hins opinbera, beri að taka tillit til margra aðstæðna og ekki hvað sízt, þegar um uppgróið sandland er að ræða. Innan sandgirðinganna í Landsveit munu vera um 10 eyðibýli, og er landið víða gróið upp, svo að 3 jarðir eru nú þegar byggilegar, en 4 sem óðast að gróa og því ekki nema tíma spurning, hvenær þær verða byggilegar. Öllum þessum jörðum þarf á sínum tíma að sjá fyrir beitilandi, og þess vegna tel ég, að gá þurfi að sér, áður en selt er af því beitilandi, sem þarna er fyrir hendi. Enn er á það að líta, að þetta land nýtist lítt frá Skarði. Það liggur langt frá bænum og upp að landi Yrja og Skarðssels, inn í heiði, þar sem það nýtist aðallega til sauðfjárbeitar. Eftir að flytja varð Skarðsbæinn undan sandinum og hann var færður þangað, sem hann stendur nú, vantar beitiland heima við bæinn, svo að mikill bagi er að fyrir Skarðsbóndann. Enn hefur hann notið þar lands, sem sandgræðslan á og hefur verið utan girðingar sandgræðslunnar, en sé þar girt á mörkum, tapar Skarð nytjum af landinu og jafnvel, að því er sumir segja, horni af túninu, og þá er Skarð illa sett. Það er þess vegna ekki óvissan um stærð lands þessa, sem hér um ræðir, sem ræður afstöðu minni í málinu, heldur upplýsingar Gunnlaugs Kristmundssonar um aðstöðuna þarna og framtíðarhorfurnar. Landið liggur aðeins 11/2 km frá Mörk, sem keypt var á sínum tíma af Vigfúsi í Engey fyrir 200 kr., en er nú að verða gróin, og geta kunnugir þess til, að þar geti orðið 1000–2000 hesta slægja eftir fá ár. Það eru því miklar horfur á, að þar risi býli, en það býli vantar beit vegna sandgirðingarinnar. Ég minntist á þessa hlið málsins við Runólf sandgræðslustjóra, og viðurkenndi hann, að þetta hefði hann ekki athugað. Ég tel því, að það þurfi að athugast í heild, hvernig land það, sem sandgræðslan á utan girðingar og innan, verði notað og þá sé tekið til athugunar, hvort það geti ekki komið til mála að skipta því öðruvísi milli jarða, en nú er gert eða ráð er fyrir gert í frv. þessu. Allt þetta tel ég, að eigi að athugast sem bezt af sandgræðslustjóra og ef til vill líka öðrum, og að þeim athugunum loknum eigi að taka málið upp aftur til þeirrar lausnar, er þá reynist heppilegust. Í sambandi við þetta þarf að athuga bæði heimalandið á Skarði og sama gildir um Króktún og prestssetrið og fleiri jarðir. Ég gæti vel hugsað mér, að þær yrðu allar látnar fá land, ef til kæmi, en ég get ekki lagt til, að þessi landræma sé seld, sem er Skarðsbóndanum ákaflega lítils virði, en gæti ráðið úrslitum um það, hvort hægt yrði að byggja Mörk eða ekki og hafa þar sauðfé.

Það er þess vegna mín till., að þessu máli sé vísað til ríkisstj. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, þótt Skarðsbóndinn fái þetta land, en ég vil láta athuga, hvort ekki er hægt að bjarga þeirri beitarþröng, sem Skarð er í, með því að láta það hafa land, sem sandgræðslan á niðri frá. Ég veit, að samnm. mínir eru að nokkru leyti inni á þessu og gera ráð fyrir, að þótt frv. verði samþ., verði hægt að gera þessar rannsóknir og verði heimildin þá ekki notuð, ef til kemur og rannsókn sýnir, að landið getur þurft undir beitiland jarða, sem aftur eru að byggjast. Ég vil aftur á móti engu treysta í þessu efni. Ég vil láta rannsaka beitarþörfina og vita, hvort ekki er hægt að fullnægja henni með því að láta land af sandgræðslunni niðri frá, og ekki gera neinar bindandi samþykktir í þessu máli fyrr en þeirri rannsókn er lokið.