08.03.1949
Efri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

101. mál, sala landræmu úr Öskjuholtslandi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætlaði nú ekki að fara út í umræður um þetta, en af því að ég er form. landbn. og hef talað um þetta mál við sandgræðslustjóra, þykir mér rétt að segja um þetta nokkur orð. — Mér kemur annars nokkuð á óvart kappið um þetta hér í Ed. Í Nd. var þetta frv. afgr. með samhljóða atkv., og þar sátu báðir þm. Rang. og réttu þar upp hönd við atkvgr., en nú er þetta allt í einu talinn voði fyrir landið, ef frv. nær fram að ganga. —

Ég spurði sandgræðslustjóra að því, hvort hann hefði nokkuð breytt skoðun sinni á málinu. Hann svaraði því neitandi. Og hann tjáði mér, að þessi blettur, sem hann ætlaði að selja, færi ekki fram úr 10 hekturum lands. Það væru, mikil not að þessu fyrir Skarðsbóndann, en gerði sandgræðslunni á hinn bóginn ekkert til, þótt þessi blettur væri seldur. Sandgræðslustjóri hefur í rauninni fengið heimild til þessarar sölu frá ríkisstj., og það má segja, að þrír fjórðu leiðar hafi þegar verið gengnir, svo að ekki er ástæða til að snúa við nú. Ég er þess fulltrúa, að hér verður ekki farið út í neinar öfgar af sandgræðslustjóra. Komi rök fram fyrir því, að rangt sé að selja, mun verða hætt við það eða spildan skorin við neglur, t.d. niður í einn hektara. Ég sagði sandgræðslustjóra, að ég mundi hafa það eftir honum, að umrædd spilda mundi ekki fara fram úr 10 hekturum lands, og eftir því, sem hann lýsti málinu, held ég því sé óhætt í höndum hans.

Ég mun af þessum ástæðum mæla með því, að þessi sala verði leyfð.