08.03.1949
Efri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

101. mál, sala landræmu úr Öskjuholtslandi

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka nokkuð fram, eftir ræðu hv. form. minni hl., en því hefur nú þegar verið svarað. En úr því að ég er risinn hér úr sæti, þá vil ég segja það, að ég vona, að þær fögru vonir hv. 1. þm. N-M. mættu rætast, að sandgræðslan í Landsveit sé á þeim rekspöl, að ekki líði á löngu, þar til jarðir fari að byggjast þar aftur. En þótt svo kynni að fara, verður eigi að síður að miða nokkuð við varðveizlu þess, sem er, og þá er á það að líta, að Skarðsbóndinn telur sér nauðsynlegt að fá þessa spildu, því að eins og hv. 1. þm. N-M. tók líka fram, er Skarðslandið mjög ónýtt orðið og úr sér gengið, og þess vegna er það, að bóndinn telur sér nauðsynlegt þetta beitiland, ekki vegna sauðfjárstofnsins fyrst og fremst, heldur til kúabeitar, a.m.k. fyrst um sinn. Landið er gróið nokkuð vel til beitar, og þarf ekki að halda því fram samtímis, að það sé lítilsvert fyrir Skarðsbóndann, en mikilsvert fyrir aðra jörð.

Ég ætla ekki að fara að velta vöngum um þau viðhorf, sem kynnu að skapast, þegar það kæmi til, að eyðibýli byggðust á ný. Þá koma tímar og koma ráð til að ganga á mörkin og nýju svæðin, sem koma undan sandinum með fögrum gróðri, og samræma þörf og landamerki. Við hv. 1. þm. N–M. vitum báðir álíka mikið um þetta, þar sem það heyrir framtíðinni til. En sandgræðslustjóra verður hér að taka sem réttan aðila, og ef kunnugleiki hans er ekki nógu mikill, og hann hefur ekki næga þekkingu og skynbragð til að ákvarða í þessu máli, svo að d. eigi að fara að hræra hér upp í pottinum, þá er hann ekki heldur hæfur til síns embættis. Þegar bæði sandgræðslustjóri og landbrh. hafa samkvæmt fyrir liggjandi skjölum ákveðið að mæla með þessari sölu, ætti það að vera nóg öryggi fyrir því, að ekki sé að neinu flanað. — Það hefur oft verið séð í gegnum fingur við bændur, sem hafa borið fram óskir sínar rökstuddar eins og þessa. Og nú stendur þarna svo á, að öllum ætti að vera ljúft að verða þarna við óskum bóndans á Skarði.

Hv. 1. þm. N-M. gerði þá till., að frv. yrði vísað til ríkisstj. En það er í rauninni búið að vera þar og fá þar bezta beina, og væri skrípaleikur að vísa því þangað aftur, nema það væru þá orðin stjórnarskipti og þessi hv. þm. orðinn ráðh. Ég get að minnsta kosti ekki betur séð, því að væri ríkisstj. á því, að þetta mætti ekki gera, hví skyldi hún þá vera að gefa undir fótinn með það og fara fram á heimild til þess frá Alþ.? Mér virðist varla hægt að skoða þetta öðru,vísi en ríkisstj. sé með málinu, enda hefur það farið svo í gegnum Nd., að því var aldrei andæft af landbrh., svo að ég viti til. Ríkisstj. hefur átt þess hinn æskilegasta kost að neita þessari heimild á Alþ., og sandgræðslustjóri er hennar umboðs- og trúnaðarmaður og leggur þetta til. Ég sé því ekki, að ástæða sé til að óttast hér nokkuð og fara um þetta mörgum orðum. Ég vil aðeins að síðustu óska þess, að þessi heimild til sölunnar verði samþ. hér í hv. þd., þar sem sýnilegt er, að hún getur ekki orðið að neinu tjóni.

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson): Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli hv. dm. á því, að ef þessi upplýsing um 10 hektara spildu er rétt, þá ætti landssvæðið, sem liggur upp með sandgræðslugirðingunni, ekki að verða breiðara en 40 metrar. Það er svo fjarri því, að þessi stærð sé rétt. Hins vegar skildist mér á hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Árn., að ef frv. yrði samþ., þá ætluðust þeir ekki til þess, að seldir yrðu nema 10 hektarar af landi; ég skildi þá svo og vil undirstrika það.

Það tekur nú ekki að elta ólar við fjarstæður hv. 2. þm. Árn., eins og þessa um kúabeitina. Heldur hann, að kýrnar verði reknar 10 km upp á heiði? En þetta er aukaatriði. Hitt er annað mál, að hann heldur því fram, að ríkisstj. hafi sagt vilja sinn í þessu máli. Það liggja nú fyrir tvö slík frv. Annað er flutt af ríkisstj. sjálfri, hitt af einstökum þm., og hann leggur fram bréf frá ríkisstj. um það, að ekki sé fært að selja landið nema með sérstökum lögum. Nú skal ég ekkert segja um það, hvað ríkisstj. í heild vill, enda byggist það ekki á því, er ég legg til, að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það byggist á því, að ég tel nauðsynlegt, að landið, sem kemur upp við sandgræðsluna, notist sem bezt og þurfi að athuga, hvernig það megi verða. Ég taldi líka, að Mörk mundi þurfa á þessu landi að halda, ef ætti að verða unnt að hafa þar sauðfé, og þarf hv. 2. þm. Árn. ekki að tala um vangaveltur í því sambandi, þar sem fullkomlega tímabært er að gera ráð fyrir þessu. Heiðalandið vil ég hafa kyrrt, svo að Merkurbóndinn geti notað það, þar sem ekki yrði annað beitiland að fá fyrir bónda, sem þar byggi. Hins vegar er einsætt að taka til athugunar þörf hinna jarðanna á þessu svæði fyrir beitiland og hvernig landi sandgræðslunnar mætti, ef til kæmi, skipta á milli þeirra. Ekkert af þessu hefur hv. 2. þm. Árn. reynt að hrekja. Það eina jákvæða, sem fram kom í ræðu hans og hv. þm. Dal., var það, að ekki ætti að selja nema 10 hektara. En þá held ég, að það væri nú eins gott að bíða þess, að málið væri rannsakað í heild.

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson): Ég vil nú segja það við þessari ræðu og reyndar fyrri ræðu hv. 1. þm. N–M. líka, að þetta mál snýst að minni skoðun aðallega um það, hvort sandgræðslustjórninni sé það óhætt vegna hennar sjálfrar að gera það, sem fram á er farið hér, en alls ekki um landamerkjamál í framtíðinni í Landsveit. Það er málefni fyrir sig. Svo er hv. 1. þm. N–M. að tala um, að það séu hér tvö frv. komin fram um landasölu. En hitt frv. er borið fram af einstökum hv. þm. En eins og ég tók fram áðan, er þetta frv., sem hér liggur fyrir, búið að ganga gegnum hv. Nd., og ég hef sannfrétt, að hæstv. landbrh. mælti ekki eitt einasta orð á móti því þar. Og vill svo nokkur hv. þdm. væna hæstv. landbrh. um, að það hafi verið af roluskap einum, að hann mælti ekki á móti frv. þar? Nei, í hv. Nd. sagði enginn orð á móti þessu frv. Og það sjá allir, að hæstv. landbrh. hefur ekkert á móti frv. að segja. Hæstv. landbrh. hefur lesið frv. og veit, að þetta er aðeins um heimild fyrir hann. Hann gæti látið ógert að framkvæma þessa sölu. Hann má það bara, eftir frv., en er ekki skyldugur til þess. Ég sé þá ekki, hvað er að óttast. Hins vegar held ég, að hv. 1. þm. N–M. þyki gaman — líkt og íþróttamanni þykir gaman að sýna listir sínar, skautahlaup og þess konar — að sýna hv. þd., hvað hann er mikill málafylgjumaður. Hann um það. Og honum tekst það vonum framar hér, af því að það er ekki svo mikill veigur í mótmælum hans, frá efnishlið málsins skoðað. En slíkt má ekki ráða stefnu hv. þd. í málinu. Það, að þetta er aðeins heimild fyrir ríkisstj., er meginatriði í málinu. Það er vitað mál, að hvort sem landið allt, sem er fyrir utan sandgræðslugirðingarnar á þessum stað, er fáir eða margir ha, þá er það þannig, að það er spilda, sem óskað er, að komi til greina við þessa hugsanlegu sölu, sem er nálægt 10 ha. lands. Og það sýnist þá ekkert vera að óttast, þar sem þetta er alveg háð samþykki ráðh., sem hv. 1. þm. N-M. vill nú, að málinu sé vísað til. Því er, þó að frv. sé samþ., vísað til hans, hvort heimildin skuli notuð. Sandgræðslustjóri vill heimila þetta, og hann virðist telja það meinlaust að öllu leyti fyrir sandgræðsluna, og vitanlega er það mergur málsins, að það sé meinlaust fyrir sandgræðsluna. Og því er ekki heldur mótmælt hér. En hvort Skarðsbóndinn á tíu eða tólf ha. meira land eða ekki, það er ekki stórt atriði. — Það hefur oft verið rætt um það, hvort einstaklingar megi eignast lönd af löndum ríkisins. Viðkomandi Kaldaðarnesi hygg ég, að við hv. 1. þm. N–M. höfum staðið þar saman. Ég segi þetta til dæmis um það, hvað þetta eru miklir smámunir, sem hér er um að ræða, á móti öðrum sölum af hálfu ríkisvaldsins. Þannig að þetta, sem fram hefur komið hér frá hv. 1. þm. N–M., getur ekki verið gert til annars, en að sýna mjúka málfærslu og leika sér að íþrótt sinni, að gera svona mál að álitamálum. En að svo miklu leyti sem hægt er að leggja merkingu í orð hv. minni hl. n. (PZ) í þessu efni, og að svo miklu leyti sem hann hefur sagt það, að þessi heimild þyrfti að vera varlega notuð, ef samþ. verður, þá er það náttúrlega sjálfsagt að nota hana varlega, enda held ég, að ekki þurfi að segja hæstv. landbrh. og sandgræðslustjóra til vegar um það að nota þessa heimild varlega.

Hv. 1. þm. N-M. leggur áherzlu á, að það megi ekki ráðstafa svona dálítilli landspildu nú þegar, vegna framtíðarskipulags viðkomandi landamerkjum á jörðum, sem skuli byggjast. Við óskum þess allir, að þessar jarðir byggist og verði að gróðurlendum. En hvern skaðar þessi heimild, þar sem þetta allt er í höndum þess opinbera, sem er sandgræðslustjóri og landbrh., þó að þessi heimild verði veitt? Fyrir mér - og ég geri ráð fyrir hinum hv, nm. í meiri hl. n. — vakti það að liðka þetta mál með því að mæla með samþykkt þessa frv.