18.12.1948
Efri deild: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég skal taka það fram, að ég er að ýmsu leyti á svipaðri skoðun og hv. 1. þm. N-M. og þó ekki að öllu leyti, og sízt er ég honum sammála um að ásaka hv. fjhn. Það er miklu fremur mín sök eða ríkisstj. í heild. En hugsanlegt er, að úr þessu megi bæta. En till. hv. þm., eins og hún liggur fyrir, að benzíngjaldinu óbreyttu er mér ekki geðfelld. Til brúanna á að veita beint úr ríkissjóði, en ekki binda fjárveitingar við einstaka liði. En um þetta má tala. Ég get þó ekki gefið nein fyrirheit um forgöngu mína önnur en þau, að okkar óskir fara mjög saman um það, að brtt. hans og hv. 8. landsk. verði athugaðar á milli umræðna, ef þær verða teknar til baka nú.