11.03.1949
Efri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

126. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Ég hef borið fram brtt. á þskj. 433. Mér þykir leitt að heyra, áð landbn. hefur ekki séð sér fært að taka þessar till. til greina, þannig að ljá þeim fylgi við þessa umr. Ég skal þó taka það fram, að þessar till. eru ekki bornar fram til að tefja fyrir frv., sem hér liggur fyrir, og skál ég lýsa því yfir, að falli þessar till., þá mun ég samt ekki setja mig á móti frv. á þskj. 325, því að ég hef ekkert á móti því, að það nái fram að ganga. Ástæðan til þess, að ég hef borið þessar till. fram, er ekki sú, eins og gefið var upp hjá hv. frsm., að ég sé að gera tilraun til að taka út einn mann til að spara. Fjvn. hefur gert róttækar till. til sparnaðar á rekstri hinna ýmsu stofnana, en sumt af því, sem hún vildi koma fram, er ekki hægt að koma fram nema með því móti að gera lagabreyt. á ýmsum öðrum l., sem nú eru í gildi. Þess vegna er rétt að bera fram um það brtt. nú, fyrst l. eru til athugunar í hv. deild, hvort sem er.

Eins og skýrsla veiðimálastjóra ber með sér, þá er ætlazt til, að í þessi mál fari 50 þús. kr. laun á ári. Nú hefur veiðimálastjóri upplýst, að hann hafi orðið að fá sér sérfræðing til aðstoðar til þess að annast þessi störf með sér, hvort sem það er af því, að hann er ekki nógu mikill kunnáttumaður sjálfur, eða ekki, um það veit ég ekkert, en sjálfur hefur hann gefið þessar upplýsingar og auk þess gert ráð fyrir aðstoð að öðru leyti. Þetta starf heyrði áður undir Atvinnudeild háskólans, fiskideildina, og þar finnst mér, að það eigi heima. Það er ekki verið með þessu að ákveða, að leggja eigi embætti veiðimálastjóra niður, — það er ekki meiningin, — heldur er með þessu hægt að spara ýmis útgjöld, svo sem laun skrifstofumanna, húsnæði og ýmislegt annað smávegis. Veiðimálastjóri getur flutt með sér sérfræðinginn, þó að hann flytji í fiskideildina í Atvinnudeild háskólans. En eins og ég sagði, það er hægt að spara 8 þús. kr. til skrifstofumanns, 1000 kr. á mánuði í húsaleigu, og auk þess er rannsóknarkostnaður 15 þús. kr. Þetta finnst mér eigi að gera, sérstaklega þegar það er nú vitað, að vel megi fara þessa leið nú, þar sem fiskideildin hefur nú fengið meira húsnæði, en hún hafði haft áður, en það var meginástæðan fyrir því, að þessi breyting var gerð, að veiðimálastjóri flutti úr fiskideildinni.

Þá þykir mér rétt að bera fram brtt. við 1. mgr. 76. gr. laganna, en í henni stendur nú, með leyfi hæstv. forseta: „Veiðimálastjóri skal vera kunnáttumaður um veiðimál og vatnalíffræði.“ Þar legg ég fram brtt. og legg til, að í staðinn fyrir þetta komi: Atvinnudeild háskólans (fiskideild) skal hafa í þjónustu sinni kunnáttumann um veiðimál og vatnalíffræði. — Með þessu er ekki ætlazt til þess, að embætti veiðimálastjóra sé lagt niður, heldur eingöngu að hann flytjist yfir í Atvinnudeild háskólans. Með því er ekkert verið að fara yfir á verksvið hans. Ég geri ekki ráð fyrir, að hans áhrif verði neitt minni fyrir þetta, því að það er ekki ætlazt til þess, að hann sé neinn yfirmaður stofnunar, heldur er hann yfirmaður veiðimála og verður það eftir sem áður.

Ég ber hérna líka fram brtt. við 79. gr. varðandi kostnað við stjórn veiðimála. Um þá hlið málsins hefur verið rætt við veiðimálastjóra, en hann telur, að kostnaður við innheimtu gjalda þeirra, sem um getur í gr., sé svo mikill, að það sé ekki fært að framkvæma hana. En ef litið er á 79. gr., þá stendur nú þar, með leyfi hæstv. forseta: „Veiðimálastjóri semur við eftirlitsmenn um kaup þeirra. Kaupið greiðist úr sýslusjóði og endurgreiðist sýslusjóði af veiðieigendum, að tiltölu við veiðimagn hvers þeirra um sig undanfarið ár. Sýslunefnd jafnar gjaldinu niður, og má taka það lögtaki.“ Þegar svo hv. frsm. segir, að hann kunni ekki við orðalagið, þá kann hann ekki við sitt eigið orðalag. (ÞÞ: Ég man ekki til þess, að ég hafi samið þessi lög, því að það var löngu áður en ég kom á þing.) Lögin voru endurskoðuð 1941, og þá var hann í n., sem fjallaði um málið. Það er þess vegna ekki mín sök, þó að orðalagið sé óviðeigandi. Hins vegar er ég albúinn til samkomulags um að breyta orðalaginu. (ÞÞ: En þetta hefur ekki verið svona í framkvæmdinni.) Ég sé, að það er hárrétt. Þetta hefur ekki verið svona í framkvæmdinni. Það hefur verið greitt 10 þús. kr. til eftirlits í Borgarfirði og Árnessýslu af ráðh. án nokkurrar heimildar. Það er gerræði og algerlega á ábyrgð ráðherra. (ÞÞ: Kannske með samþykki fjvn?) Nei, ekki með samþykki fjvn. En það, sem þarf að athuga, er, hvort ekki sé hægt að strika þennan póst út. (PZ: Vitanlega á að strika hann út.) Þetta gjald ber að innheimta skv. ákvæðum laganna, og það eru sýslurnar, sem eiga að innheimta það. Þetta gjald ber að innheimta, og það á að renna í ríkissjóð, því að það hefur verið hann, sem hefur staðið undir kostnaðinum við þessi mál. Á þessu hef ég byggt brtt. mína.

Hv. frsm. spyr, hvort fjvn. hefði ekki getað breytt þessu. Ég vil upplýsa það í þessu sambandi, að fjvn. hefur ekki lagt til neinar brtt., en skv. skýrslu veiðimálastjóra, þá er það mjög athugandi, hvort ekki muni vera hægt að lækka kostnaðinn um 10 þús. kr. Ég vil vænta þess, að það verði ekki mikil átök um þessar niðurfærslur á útgjöldum ríkissjóðs, þó að þetta sé í sjálfu. sér ekki afgerandi fyrir afkomu hans, en ef ekki verður gengið inn á þessar niðurfærslur, eins sjálfsagðar og þær eru, þá má ekki búast við því, að greiðlega gangi með önnur mál af því tagi. Þessa afsökun frá hv. n. um, að hægt sé að breyta þessu seinna, get ég ekki tekið gilda: Tækifærið er í dag. Þetta lamar ekki starfsemi veiðimálastjóra á nokkurn hátt, en getur hins vegar sparað ríkissjóði nokkur þús. kr., og þess vegna get ég ekki skilið, að hv. þm. standi á móti þessari brtt. Ég vil benda hv. frsm. á, að það er ekki neitt auðvelt verk fyrir fjvn. að koma saman fjárl. með auknu tillagi til verklegra framkvæmda, og þær till., sem gerðar eru um niðurfærslur á gjöldum ríkisins, munu mæta mikilli mótspyrnu, ef alls staðar verður veitt jafnmikil mótspyrna sem í þessu máli.

Að endingu vil ég vænta þess, að þessi ágæti og prýðilegi þm. sýni sanngirni í þessu máli, eins og hann hefur jafnan gert í öllum málum áður.