11.03.1949
Efri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

126. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinson):

Herra forseti. Ég hef ekki viljað bregðast trausti hv. þm. Barð., en ég vil benda hv. þm. Barð. á, að þó að á þetta verið fallizt, þá er ekki hægt að svipta veiðimálastjóra embætti, því að hann er ráðinn til 5 ára og er ekki búinn að vera nema á þriðja ár, það er því ekki hægt að segja upp, fyrr en hann hefur fyllt þetta 5 ára tímabil, og það er ekki hægt að svipta hann stöðu eða launum fyrr. Hann er að því leytinu fastari í stöðu sinni, en flestir aðrir. Annars er það staðreynd, að hv. þm. getur oft verið hógvær og sanngjarn í kröfum sínum, og ég vænti þess einnig, að svo geti orðið hér. Hv. þm. veit, að alls staðar eru atvinnuvegirnir á hausnum. Alls staðar þarf að styrkja. Laxveiðieigendur og laxveiðimenn eru næstum því þeir einu, sem eru ánægðir. Ég held því, að það sé ekki heppilegt að fara að gera þá óánægða líka. Og ég held nú líka, að ef hv. þm. leggur sig í líma, þá held ég, að hann geti komizt að sanngjarnri niðurstöðu, og ég veit nú reyndar ekki betur, en að fjvn. hafi fullt leyfi til þess að gera sínar ráðstafanir til þess að draga úr skrifstofu- og húsaleigukostnaðinum, ef henni lízt svo.