09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

115. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get orðið fáorður um þetta mál. Eins og hv. þm. sjá, er þetta ákaflega einfalt mál. Þegar l. um hafnargerðir og lendingarbætur voru sett nú fyrir 2 árum, þá var ekki gert ráð fyrir öðru, en að bætt yrði inn í þau l. þeim höfnum og verzlunarstöðum, sem nauðsyn bæri til að hafa í l. Svalbarðseyri er ein þessara staða, sem ekki hefur verið tekin upp í l. Um staðhætti er það að segja, að þar hefur verið um langan aldur verzlun og kaupfélag. Þar hefur og einnig verið allmikil síldarsöltun og talsvert mikill rekstur um margra áratuga skeið. Nú er þessi staður orðinn eign sveitarfélagsins, en var áður í einstaks manns eigu, og það hefur komið fram ákveðin ósk um það, að þessi staður verði tekinn upp í hafnarl., og virðist það að ýmsu leyti enn eðlilegra, en um ýmsa aðra staði, sem þegar eru komnir inni í l.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. sjútvn.