17.03.1949
Neðri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

115. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þarf raunar engu við að bæta það, sem ég sagði, þegar þetta mál var lagt fyrir deildina. Þessi staður, sem hér um ræðir, er við austanverðan Eyjafjörð. Þar var rekin verzlun til forna, og þar er nú starfandi kaupfélag. Sveitarfélagið, sem staðurinn telst til, hefur keypt landsvæðið við sjóinn og óskar nú eftir að fá sömu réttindi og mjög margir aðrir staðir hafa hlotið í sambandi við hafnargerðir og lendingarbætur. Sjútvn. hefur athugað þetta mál og meðal annars leitað álits oddvita hreppsins og vitamálastjóra, og voru þessir aðilar málinu fylgjandi. Eftir þær upplýsingar var nefndin á einu máli um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt.