18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þegar 2. umr. um þetta mál fór hér fram, mæltist ég til þess við hv. flm., að þeir tækju brtt. á þskj. 185 og 202 aftur í bili, með því að í hv. Nd. var annað mál á ferðinni, sem líka gat komið til mála, að snerti benzínskattinn. Og ég vildi sjá, hvað gerðist í því máli, áður en ég fyrir mitt leyti tæki endanlega afstöðu til þeirra óska, sem hv. þm. hafa komið fram með í sínum brtt., sem sé að skerða bifreiðaskattstekjur ríkissjóðs þannig að áætla af honum vissan hluta í brúasjóð. Hér er að vísu lagt til að hækka um leið skattinn sem því nemur, svo að það er í raun og veru ekki rétt hjá mér að segja, að hv. þm. vilji skerða skattinn frá því, sem hann nú er til ríkissjóðs, því að þeir leggja til hækkun á honum. En hér er samt sem áður verið inni á heldur leiðinlegri braut hvað þetta snertir, að leggja til, að ákveðið verði í sjálfum skattalögunum, að ákveðinn hluti verði tekinn af ríkistekjunum og honum ráðstafað í ákveðnu augnamiði. Og þó að ég fyllilega viðurkenni þá þörf, sem er á því að fá brýrnar, og vildi ekki vera því til trafala, að til þeirra væru eftir eðlilegum leiðum ákveðnar fjárveitingar, ef hagur ríkissjóðs leyfði það, þá get ég ekki annað en mælt móti því, að þessi leið sé farin, og legg ég því til, að þessar till. verði felldar. Ef svo veruleg hækkun verður gerð á benzínskattinum — ég segi veruleg —, sem hefur nú legið í loftinu, en af einhverjum ástæðum hefur ekki fengið samþykki allra aðila, að sú ráðstöfun kæmi fram þegar í stað, sem ég tel mjög óheppilegt, vegna þess að það verkaði til hækkunar á fargjöldin, þá er mjög líklegt, að ríkissjóður mundi einhvern hluta af þeirri hækkun þurfa að fá til almennra nota. — En þetta er sem sagt mín afstaða gagnvart þessum brtt.