14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta frv. á allmörgum fundum og var sammála um, að efni frv. væri til bóta. Hins vegar þótti n. ákvæði 1. gr. nokkuð óljós, svo að jafnvel mátti skilja, að svipta ætti bæjarfélögin styrknum, svo að hún leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að 1. gr. orðist þannig: „Ríkissjóður greiðir bæjarfélögunum allt að tveim fimmtu kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að tveim þriðju kostnaðar af að reisa almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði, sem reistir verða samkvæmt ákvæðum laga þessara, enda fallist ráðherra á þörf þeirra framkvæmda og meti þær við hæfi.“ Við frv. lá fyrir brtt. frá hv. þm. V-Sk., og finnst mér, að með brtt. n. sé hún tekin til greina, og vona, að flm. hennar megi þar við una.