14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst það frv., sem hér liggur fyrir til umr., spor í rétta átt, ef samþ. verður, því að það er vitað mál, að í landinu er mikill skortur á sjúkrahúsum og sjúkraskýlum. Í heilum landshlutum er svo að segja sjúkrahúslaust. Á öðrum stöðum, þar sem sjúkrahús hafa verið reist, eru þau ófullkomin, því þótt þau hafi verið fullkomin í upphafi, þá eru þau nú úr sér gengin. Það er því vissulega spor í rétta átt, að Alþingi samþ., að bæjarfélög og læknishéruð skuli njóta styrks frá ríkissjóði til að koma upp sjúkrabyggingum, en eins og þetta frv. er, þá er farið inn á þá braut að styrkja slíkar byggingar allríflega og ríflegar en verið hefur. En aðalatriði málsins er engan veginn það að samþ. á Alþingi, að ríkissjóður greiði ákveðinn hundraðshluta af byggingarkostnaði þessara mannvirkja, vegna þess að hv. þm. er kunnugt, að á undanförnum árum hefur verið samþ. fjöldi laga, þar sem ríkissjóði eru lagðar þær byrðar á herðar að styrkja ýmiss konar framkvæmdir með fjárframlögum. Framkvæmd margra þessara laga hefur strandað vegna fjárskorts ríkissjóðs. Það er því að bera í bakkafullan lækinn að samþ. ný lög, er miða við það eitt að leggja til, að auknar byrðar séu lagðar á ríkissjóð, án þess að sjá honum fyrir tekjum á móti. Það er því blandin ánægja mín út af þessu frv., enda þótt málefnið sé gott. Það, sem blasir við mér og öðrum hv. þm., er það, að hér er verið að samþ. lög, sem leggja auknar skyldur á herðar ríkissjóði, en möguleikarnir til þess að koma í framkvæmd því, sem frv. gerir ráð fyrir, aukast ekkert. Alþingi hefur að vísu látið í ljós þann vilja sinn, að fleiri sjúkrahús verði reist og með auknum ríkisstyrk, en það situr bara við þessa frómu viljayfirlýsingu, því að Alþingi gerir sér ekki það ómak að sjá fyrir tekjustofnum í þessar framkvæmdir. Ég sé ástæðu til að benda á þessa hlið málsins, því að það er ástæðulaust fyrir Alþingi að gera sér í hugarlund, að það stuðli eitthvað að framgangi mála að gefa út eintómar viljayfirlýsingar, en gera raunverulega ekkert til þess, að úr framkvæmdum megi verða. Ég sé alveg sérstaka ástæðu til að benda á þetta, af því að þegar hv. Alþingi sá framan í till., sem tryggði öruggan tekjustofn til sjúkrahúsbygginga, hvað gerðist þá? Hver var áhugi hv. þm. á framgangi málsins þá? Það er útlátalítið að samþ. lög og orða frómar till., en það er meiri vandi að standa við þær og sjá svo um, að viðkomandi framkvæmdir komist upp. Því segi ég, að lagasetning eins og þessi, sem miðað er að með þessu frv., byggist á of mikilli léttúð hv. þm. Það er útlátalítið að segja, að ríkissjóður eigi að gera þetta eða hitt. Hitt skiptir meiru, að benda á, hvar afla skuli fjár í þær framkvæmdir, sem gera á. Ég skal ekkert vera að fara í kringum þetta. Ég minni á, að á síðasta Alþingi flutti ég, ásamt hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Ak., frv., þar sem bent var á ákveðinn, öruggan tekjustofn til þess að standa undir byggingu sjúkrahúsa. Ég veit, að hv. þm. muna, hvað þá gerðist. Hv. þm. muna öll þau köll og hróp, allan þann yfirborðshátt og hræsni hjá andstæðingum þess frv. Það sæmir sér svo vel, að Alþingi komi nú og samþ. lög sem þessi, og sérstaklega sæmir það sér vel fyrir þá, sem börðust eins og ljón gegn því, að sjúkrahúsbyggingarnar fengju örugga tekjustofna. Ég segi við slíka menn, að það fer glansinn af velvild þeirra í garð þessara mála, þegar þeir samþ. svona frv. út í bláinn, hafandi áður fellt að sjá þeim fyrirtækjum, sem þeir þykjast vilja koma upp, fyrir öruggum tekjustofnum. Ég spyr: Hvar ætla þeir að taka féð til þessara framkvæmda? Hv. þm. hafa séð, að það hefur orðið að fresta framkvæmd ýmissa laga vegna fjárskorts. Þessi lagasetning má þó hafa þýðingu, ef annað tveggja batnar hagur ríkissjóðs, eða þá, að Alþingi láti ekki sitja við þessa lagasetningu eina, heldur sjái fyrir tekjum til þeirra framkvæmda, sem frv. gerir ráð fyrir. Það hefur þegar verið gengið nógu langt í þessum skrípaleik, sem sumir hv. þm. virðast aldrei þreytast á að leika. Ég mun að líkindum leggja síðar á þessu þingi fram till. um tekjustofna handa þessum fyrirtækjum. Ég skal ekki fullyrða, að það verði sami tekjustofn og ég lagði til í fyrra, því að hann fékk daufar undirtektir hv. þm., en það er næsta skrefið til að tryggja framgang þessara mála, og nauðsynlegt er, að hv. þm. geri sér ljóst, að lög, sem hér eru samþ., byggjast á ábyrgðarleysi og yfirborðshætti, ef ekki er tryggt, að fé sé fyrir hendi til þeirra framkvæmda, er um ræðir. Ég vildi láta þetta sjónarmið koma hér fram. Ég mun fylgja frv. í trausti þess, að Alþingi sjái síðar fyrir tekjustofnum, svo að snúast megi af auknum krafti að byggingu sjúkrahúsa og sjúkraskýla víðs vegar um land.