14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Mín afstaða er glögg í þessu máli. Ef bæjarfélag, eins og l. tala um, gengst fyrir því að reisa sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústað, þá lít ég svo á, að það eigi að fá greidda 2/5 hluta kostnaðar, enda þótt innan vébanda þess kunni að vera 1 eða 2 sveitarhreppar, sem er ekki mikið um. Undantekningarlitið eru stærri kaupstaðir út af fyrir sig, en þó kunna að vera í einstöku tilfellum 1 eða 2 sveitarhreppar með kaupstaðnum í læknishéraði. Ég lít svo á, að sé sjúkrahúsið byggt í bæjarfélagi, þá eigi það að fá greidda 2/5 kostnaðar, en sé það reist í kauptúni, þá fái það 2/3 kostnaðar. Ég held, að þetta sé ekki ósanngjarnt, þegar litið er á það, að bæjarfélög eiga miklu hægara með rekstur slíkra stofnana. Þetta er minn skilningur í þessu máli, en ég get gert það hv. 2. þm. S-M. til geðs að láta athuga þetta innan n. fyrir 3. umr.