28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

148. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef ekki mikið að bæta við það, sem sagt er á þskj. 393. Frv. þetta er að nokkru leyti flutt vegna þess, að margir útgerðarmenn fiskibátanna hafa ítrekað þau ummæli sín, að það fé, sem þeir væru skyldaðir til að leggja í nýbyggingarsjóð, kæmi þeim aldrei að notum og væri ekki notað til nýbyggingarbáta. Hins vegar hefur þessum mönnum verið það óheimilt að taka fé sitt úr nýbyggingarsjóði og nota það til að greiða með því töp, sem þeir hafa orðið fyrir vegna báta sinna undanfarin tvö ár. Það er alveg óviðeigandi að hafa þetta fyrirkomulag, að peningar þessara manna komi þeim ekki að notum. Á þeim árum, er þessi l. voru sett, þá var öðruvísi háttað um bátasmíðar og þá var annað verðlag á því sem öðru. Þá var styrkur sá, sem ætlaður var, 10–20 þús. kr. Með því átti að vera hægt að létta undir með endurbyggingu bátaflotans, og var þá miðað við 30–40 smálesta báta. Er nýbyggingarráð réðst í hinar miklu bátasmíðar, var þessi stærð tvöfölduð og byggingarkostnaður hafði margfaldazt frá því, sem áður var. Þetta olli því, að framlög þau, sem runnu til nýbyggingarsjóðs, voru lítils megnug, en upphæð sú, sem rann í nýbyggingarsjóð, var skattfrjáls. Alþingi hafði að vísu verið tregt til að vægja í skattfrelsi. Var togstreita milli þeirra, sem vildu hafa framlögin sem ríflegust, og hinna, sem vildu ekki hlífa sjóðfénu. Afleiðingin var sú, að eign flestra útgerðarmanna í sjóðnum er minna en 10 þús. kr. á skip. Nú kostar bygging báta 500 –700 þús. kr., eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur með Svíþjóðarbátana. Það er því lítil trygging fyrir útgerðarmenn að eiga 10 þús. kr. í nýbyggingarsjóði. Það kemur að litlum notum. En eins og getið er í grg., þá var gert ráð fyrir, að ef misæri kæmi, þá væri útgerðarmönnum það heimilt að gripa til nýbyggingarsjóðs til að greiða töp, sem orðið hafa á bátum þeirra. Er þetta sagt með beinum orðum í l. frá 1942, en það sett að skilyrði, að ekki séu aðrar eignir, sem væri unnt að greiða með af hálfu útgerðarmanns. Nú er reynslan sú, að þeir útgerðarmenn, sem hafa tilkynnt undanfarin tvö ár, að þeir óski að fá fé úr sjóðnum í þessu augnamiði, þeir hafa fengið þau svör hjá sjóðsstjórninni, að þeim væni óheimilt að fá fé úr sjóðnum samkv. gildandi l. um hann. Með þessu hefur sjóðsstjórnin litið svo á, að ekki væri heimilt að nota sjóðinn til að greiða töp á útgerðinni. Þess vegna eru fyrirmæli l., sem hér að lúta, dauð og ómerk í framkvæmdinni. Það er ekki hægt að framkvæma þetta sökum þess, hvernig sjóðsstjórnin túlkar l., þó að slíkt muni eflaust stangast á við skoðanir lögfræðinga og anda lögfræðinnar. En það má ekki deila við dómarann. Þetta fé er þýðingarlaust til endurbygginga eða nýbygginga, en féð er innilokað og getur ekki komið að gagni, og það má ekki veðsetja það. Þetta skeður á sama tíma og lögveð og sjóveð falla á skipin og Alþingi heimilar að greiða stórfé úr ríkissjóði vegna bátaútvegsins. Þá skeður þetta, að útgerðarmenn geta ekki notað fé, sem þeir eiga, til að bægja frá sér skuldheimtumönnum. Það hefur þrásinnis komið fyrir, að krafizt hefur verið uppboðs á skipi vegna þess, að skipið hefur skuldað Tryggingastofnun ríkisins fyrir slysatryggingar sjómanna, og þegar svipaðar aðrar kröfur hafa staðið á skipi. Ríkisvaldið má ekki loka þessar upphæðir inni á sama tíma og bátaútvegurinn leitar á náðir þess.

Ég gat ekki verið að standa í því að safna utan um mig mörgum þm. til að flytja þetta mál með mér. Hv. þm. munu verða fljótir að átta sig á þessu máli, það liggur svo ljóst fyrir, og þeir þm., sem ég hef átt orðræður við um þetta, hafa allir verið á svipaðri skoðun og ég. Það virðist því ekki vera neinn skoðanamunur um efni málsins.

Að þessari umr. lokinni óska ég þess, að málinu verði vísað til 2. umr, og hv. sjútvn.