18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Ég býst við, að það hafi ekki mikil áhrif á úrslit þessa máls, hvort haldnar eru langar eða stuttar umr., en ég vil þó segja fáein orð út af þeim umr., sem farið hafa fram. Hæstv. fjmrh. minntist á það, og mér virtist það vera aðalástæða hans á móti frv., að sér þætti það leiðinleg braut að taka hluta af rekstrartekjum ríkisins eftir öðrum leiðum, en beinlínis fjárl. Ég vil benda á það, að hér er ekki, þótt hér sé gert ráð fyrir því að taka þennan hluta af þeim rekstrartekjum, sem annars mundu fara í ríkissjóðinn, verið að veita fé úr ríkissjóði að neinu ráði, og ég vil benda á það atriði, að hér er nú verið að afgreiða í Nd. frv. um svokallaðar dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Þar er gert ráð fyrir því, ekki aðeins að það verði teknar 1–2 millj. kr. af tekjum ríkisins, sem verður bundið til ákveðinna hluta öðruvísi en í fjárl., heldur er gert ráð fyrir, að 70 millj. verði teknar í svokallaðan dýrtíðarsjóð, án þess að það komi beinlínis fram í fjárl. nema lítill hluti af því. Hér er um tvenns konar atriði að ræða. Í fyrsta lagi, hvort taka eigi fé á þennan hátt og safna því til verklegra framkvæmda, sem erfitt er að leggja til á einu ári, og það er það, sem gert er ráð fyrir í þessu. frv., svo er að hinu leytinu það, sem um er að ræða í þessum dýrtíðarl., en þar er gert ráð fyrir að taka slíkt fé í stórum stíl í beina eyðslu, og það er það atriði, sem ég álit, að eigi miklu siður að fara inn á heldur en þetta. Þá má minna á það, að þessi aðferð, sem hér er farið fram á, hefur verið notuð áður, og einmitt í þeirri mynd, sem ég fer fram á í þeirri brtt., sem ég flyt við till. hv. 1. þm. N–M., en það er það að taka fé í brúasjóð og binda það við ákveðna brú, sem mjög mikil þörf er á, að verði byggð og það sem fyrst.

Þegar ákveðið var að stofna brúasjóð, þá var það m.a. ákveðið, að því fé skyldi varið til brúargerðar á Jökulsá á Fjöllum, vegna þess að það þótti tvísýnt, að sú brú yrði byggð að öðrum kosti. Ég býst við að annað atriði hafi líka komið til greina, þegar ákveðið var að brúasjóður skyldi starfa á þennan hátt, það er það, að ef brúasjóður er stofnaður án þess, að ákveðið sé jafnframt, hvernig honum skuli varið, heldur skuli Alþ. í hvert skipti, þegar fé er veitt úr sjóðnum, ákveða, hvernig fénu skuli varið, þá er mikil hætta á því, að sjóðurinn verði að bitbeini um það, hvaða brú ætti að verða fyrir valinu. Er þá hætt við, að fram kæmu till. um brýr, sem yrðu ofan á, en brýr, sem ekki er ástæða til að safna fé til í brúasjóð, heldur veita fé til þeirra á fjárl. í hvert skipti. Þess vegna vil ég ákveðið mæla með því, að samþ. verði þessi till. mín á þskj. 202, þar sem ákveðið er gert ráð fyrir því, að fé brúasjóðs skuli eingöngu varið til brúargerða á stærstu fljót landsins og fyrst skuli byggð brú á Jökulsá í Lóni, vegna þess að ég tel liggja fyrir upplýsingar um það, að það sé réttmætt, að sú brú verði með þeim allra fyrstu, sem veitt verður fé til úr brúasjóði. Ég vil taka það fram, að ég viðurkenni, að brú á Þjórsá eigi að koma á undan, en hvað öðrum brúm viðvíkur, þá tel ég, að þessi eigi að koma fyrst.