26.04.1949
Efri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

148. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Það fjallar um það, að bátaútvegsmenn, sem í árslok árið 1948 áttu í nýbyggingarsjóði inneign, sem er lægri en 25.000.00 kr. á skip, eða hafa tapað meira á tveim síðustu árum en svarar inneign þeirra í sjóðnum, megi taka eign sína úr nýbyggingarsjóði og nota sem rekstrarfé. Eins og þetta var fyrst borið fram í Nd., þá átti þetta að ná til allra aðila, en því hefur verið breytt í Nd., þannig að það nær nú aðeins til bátaútvegsmanna, en rétt hefði verið að láta þetta ganga jafnt yfir alla aðila, og tel ég því þessa breytingu, sem á hefur verið gerð, ranga. En það sýnir aðeins samúð við aðra útvegsmenn, en bátaútvegsmenn, hvernig frv. hefur verið breytt í Nd., sem vill ekki láta þetta ganga út yfir togara. Þótt þeir eigi fé inni, þá er þeim ekki heimilt að taka það, þó að þeir hafi tapað á rekstrinum á sama tíma. En þrátt fyrir þessa ágalla, þá vil ég þó heldur, að það nái fram að ganga, og mun ég því ekki gera ágreining um þetta í n., heldur fylgja því eins og það er, þó að hitt hefði verið réttara. Hér er um að ræða tæpar 900 þús. kr. og er það vitað, að það verða aldrei byggð skip fyrir þá fjárhæð. Þess vegna legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt.