11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um útflutning og innflutning á íslenzkum og erlendum gjaldeyri, gerir þrjár aðalbreyt. á l. Í fyrsta lagi, að numin séu úr l. þau ákvæði, sem nú leggja þá kvöð á Íslendinga, að þeir verði að gefa upplýsingar um það, áður en þeir fara úr landi, að þeir semji ekki við erlenda aðila um að fá uppihald erlendis gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri eða nokkurs konar öðru endurgjaldi. Frv. það sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að Íslendingar þvert á móti hafi fulla heimild til þess að semja við aðila erlendis um, að þeir megi þiggja þar greiða og fyrirgreiðslu gegn endurgreiðslu með sams konar greiða hér á landi, og þetta gildi jafnt fyrir einstaklinga og félagshópa. — Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að ekki sé hægt samkvæmt l. að setja reglur, sem banna mönnum brottför úr landi nema með leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna. — Í þriðja lagi, að útlendingum sé ekki gert að skyldu að afhenda þann erlenda gjaldeyri, sem þeir koma með hingað til lands, þ.e.a.s. þann farareyri, sem þeir hafa með sér, meðan þeir standa hér við. Slík kvöð er ekki til í neinu landi, eftir því sem mér er kunnugt. Ég hef hvergi orðið var við það, þar sem ég hef ferðazt, að útlendingum sé gert að skyldu að afhenda gjaldeyri, þegar þeir koma inn í landið, og sækja hann svo til bankanna, þegar þeir fara úr landinu. — Ég álit, að þótt það sé langt gengið í því að reyna að kontrolera meðferð gjaldeyris og koma í veg fyrir svartan markað með hann, þá hljóti þó að vera takmörk fyrir því, hvað hægt er að ganga langt í þessum efnum, bæði að því er snertir kvöð á Íslendinga um, að þeir megi ekki í neinni mynd taka á móti greiða erlendis með því að greiða það í svipaðri mynt hér heima, eða setja á útlendinga þá kvöð, sem ekki þekkist í neinu öðru landi mér vitanlega. Þessi heimild um gagnkvæman greiða er svo sjálfsögð, að það ætti ekki að þurfa að deila um það atriði. Og ef við lítum til annarra landa, þá veit ég ekki til, að það sé nokkurs staðar tekið fram í gjaldeyrisreglum annarra landa, að landsmenn megi ekki nota sér slíkt. Ég hef orðið var við það, að margir, sem lögfróðir eru, telja það víst, að þær reglur, sem viðskiptanefnd hefur sett til að banna mönnum brottför úr landi, hafi ekki við nein l. að styðjast. Þess vegna álit ég, að n. hafi sett þarna reglur um, að menn megi ekki undir neinum kringumstæðum fara af landi nema með leyfi n., án nokkurrar heimildar. Þetta er gert á þann hátt, að n. bannar skipafélögum og flugfélögum að selja mönnum farmiða nema með hennar leyfi. Hún getur sett þessa þvingun á þessi félög, vegna þess að þau þora ekki annað, en hlýða boði hennar, af því að þau hafa svo mikið undir hana að sækja um gjaldeyri. En ég fullyrði að þetta bann n. hefur ekki að styðjast við neinar lagaheimildir. Landsmenn eru með þessu atriði svo að segja lokaðir hér inni eins og melrakkar í greni. — Ég gæti sagt hv. d. frá dálítið einkennilegu atviki, sem kom fyrir nýlega í sambandi við þetta og sýnir, hvernig framkvæmdin er á þessu, eins og framkvæmdin hefur alltaf verið, þegar höftin fara að ganga út í öfgar, eins og hér á sér stað. Það er stúlka, sem bað um leyfi til að mega fara af landi til þess að heimsækja systur sína í Vesturheimi. Hún fékk nei til að byrja með, en það gekk maður undir manns hönd til að biðja um leyfi fyrir stúlkuna hjá n., og það kom upp úr einum nefndarmanni, sem hafði með þetta að gera: Já, það var hægt að fá leyfi til að fara af landi burt með því að fara alfarinn og koma aldrei aftur. — Þetta er gott dæmi af því, hvernig þessir öfgar eru komnir inn í þessa haftapólitík, sem við rekum hér. Annað dæmi mætti líka benda á. Það er íslenzk kona, sem er gift útlendingi, þau hafa dvalið hér á annað ár. Þessi koma á miklar eignir hér, sem hún hefur erft, en þeim er óskipt, og hjónin hafa dvalið hér hjá skyldmennum sínum á annað ár eins og útlendingar. Þau hafa beðið um leyfi til að fara af landi, en fá það ekki, nema borga fargjaldið í erlendri mynt. Konunni þótti þetta súrt í brotið, og hefur gengið maður undir manns hönd til að fá leiðréttingu á þessu, og ég veit ekki betur en það sé komið í viðkomandi ráðuneyti. Og eitt af svörum n. var m.a. það, að það mætti athuga þetta, að leyfa konunni að kaupa farseðil í íslenzkri mynt, ef búinu yrði skipt. Það átti að skipta búi, sem margir aðilar áttu eign í, til þess að n. gæti leyft þessari konu að kaupa farmiða með íslenzku skipi, sem sigldi með íslenzkar vörur til Vesturheims. Vitleysan hefur gengið svo langt í þessum efnum, að það tekur engu tali, og sýnir þetta, á hvaða braut við erum komnir í þessum efnum.

Það munu vafalaust sumir halda því fram, að hér sé verið að reyna að greiða götu þeirra, sem hafa skotið undan gjaldeyri. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja og ætla ekki að mæla bót þeim, sem slíkt hafa gert, en þessar reglur, sem hér hafa verið settar um átthagafjötra, ná alls ekki settu marki, ef þær eiga að koma í veg fyrir kaup eða sölu á svörtum markaði. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að með þessum reglum er í raun og veru verið að dæma alla landsmenn fyrir fram sem seka við gjaldeyrisl. Í þessu sambandi má benda á, að Danir hafa nýlega sett hjá sér reglur, sem leyfa frjálsan gjaldeyri til allra, sem fara í viðskiptaerindum til útlanda. Þeir veita þeim ákveðinn gjaldeyri á dag í sín ferðalög, og það eru ekki settar neinar takmarkanir fyrir því, hversu lengi viðkomandi menn megi vera í ferðinni, og þetta er veitt bæði í sterlingspundum og dollurum. Þetta sýnir m.a. það álit Dana, að það sé í rauninni neyðarbrauð að herða svo á þessum gjaldeyrisl. í sambandi við ferðalög eins og gert hefur verið. Það er öllum kunnugt, að í Englandi eru þær reglur, að óbreyttir borgarar hafa kröfu til þess að fá ákveðna upphæð á ári til ferðalaga erlendis. Þetta sýnir meðal annars, hvaða álit Englendingar hafa í þessum efnum.

Ég vænti þess því, að hv. d. sjái, að þær breyt., sem hér eru settar fram, séu í fyllsta máta sanngjarnar og að þessum l. þarf að breyta á þennan hátt, svo að betur megi fara en nú er. Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.