18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil upplýsa hv. þm. N–M. um það, að hér er ekki verið með annað, en staðfestingu á ákvæði, sem setja varð með brbl. vegna þess, að það hafði fallið niður að endurnýja það. Ég er annars sammála hv. 1. þm. N–M., en bara ekki í því að fara að samþykkja till. hans og því síður till. hv. 8. landsk., af því að hún bindur sig við alveg ákveðna brú, sem till. hv. 1. þm. N–M. gerir þó ekki. Ég er fyllilega hlynntur því, að brúasjóður verði stofnaður og stórbrýr landsins verði brúaðar, en mér finnst, að það eigi að ganga að því þá reglulegu boðleið, sem liggur í gegnum fjvn. þingsins. Annars er talsvert til í þeirri ádellu hv. þm., að það er dálítið sárt fyrir mig að verða að standa hér upp og verja það, að benzínskatturinn sé ekki hækkaður það ríflega, að hann komi að verulegu gagni, en þar til er því að svara, að það hefur ekki fengizt til þess samþykki manna, sem standa hv. þm. nær en ég geri, svo að það er ekki mín sök. En við skulum vona, að þetta verði lagfært og þá um leið verði tækifæri til þess að taka sjónarmið þessara beggja þm. til greina, sem hér standa að þessum brtt., og í rauninni erum við ásáttir um þetta allt saman nema aðferðina.