11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Eins og ég gat um í upphafi, hef ég,ekki skrá yfir, hvernig þetta skiptist, en hef fengið nákvæma skrá frá viðskiptan., sem ég mun við framhald þessarar umr. lesa upp hér. En ég hygg, að 1/3 af þessari tölu hafi farið til venzlamanna erlendis. Nokkur hluti hefur farið með sjómönnum eina ferð, þ.e. konur þeirra og börn, ýmsir ættingjar námsmanna hafa farið með þeim og annað þess háttar. Þó hygg ég, að flest þetta fólk hafi gert á fullnægjandi hátt grein fyrir því, að það átti þess kost að dvelja erlendis þann tíma, sem það óskaði, þannig að fyrir þeirri þörf væri séð á fullkomlega eðlilegan hátt, án þess að veita þyrfti því gjaldeyrisleyfi og án þess að til þess væri notaður gjaldeyrir, sem ekki væri eðlilega fenginn. En ég skal við framhald umr. koma með þessa skrá og lesa hana upp.