11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera í d., svo að ég geti svarað einhverju af því, sem hann bar fram. Hann kvartaði undan því, að blandað væri inn í umr. neyzluvörum, að nefndinni væru mislagðar hendur o.s.frv. Hann hefur sjálfur innleitt þessar umr., svo að það er skrýtið, að hann skuli kvarta, en annars er það ekki óskylt þessu máli, þar sem talað er um réttindi nefndarinnar, þó að sagt sé, að nefndinni séu mislagðar hendur, bæði í þessu máli og öðrum.

Hæstv. ráðh. sagði, að samkvæmt 4. gr. fengju allir leyfi til utanferðar, er gæfu yfirlýsingu um það, að þeir hefðu fengið gjaldeyri á löglegan hátt. En menn geta þurft að fara úr landi af ýmiss konar ástæðum, t.d. til þess að leita sér atvinnu, eins og hv. þm. Barð. nefndi. Ég hygg, að það standi í stjskr., að ekki megi hefta atvinnufrelsi manna. En er það ekki að hefta atvinnufrelsi manna; ef þeim er bannað að fara úr landi til þess að leita sér atvinnu?

Þá verð ég að segja það, að mér þykir það ekki síður fráleitt, að konur og börn skipsmanna á skipum, sem sigla til erlendra hafna, skuli ekki fá að taka sér far með skipinu og koma aftur í sama „túr“ án þess að biðja um leyfi yfirvaldanna. Það sýnir hvað bezt; hve langt þetta bann gengur. Hæstv. ráðh. sagði, að mönnum væri gefið leyfi, ef þeir gæfu sómasamlegar ástæður fyrir því, að þeir brytu ekki gjaldeyrislöggjöfina. Ég verð að bera brigður á það, að fullkomins réttlætis sé gætt í þessum efnum af hálfu nefndarinnar. Dæmið, sem ég nefndi í framsöguræðu minni, um stúlkuna, er ætlaði utan til dvalar hjá systur sinni og fékk þau svör, að hún gæti farið, ef hún kæmi aldrei aftur, gefur nokkra hugmynd um þetta réttlæti.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði sagt, að hér væri um algert bann að ræða. En er það ekki svo? Þau 2000 leyfi, sem nefndin hefur veitt, sýna bara það, eins og hv. þm. Barð. benti á, að nefndin þorir ekki að standa við auglýsingu sina, sem gefin var út í því trausti, að enginn mundi leggja þetta fyrir dómstólana.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri gert til þess að bæta gjaldeyrisástandið. Hv. þm. Barð. kom inn á þetta, og það eru brosleg rök að halda því fram, að þetta bæti gjaldeyrisástandið. Það er fráleitt. Framkvæmd laganna byggist ekki á þeirri vissu, að hér sé um það að ræða að bæta gjaldeyrisástandið. Hér er um að ræða sýki, er búin er að grípa um sig í öllu opinberu lífi, í sambandi við höft og hömlur.