18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég skal fúslega játa það, að sú hvatning til að brúa stórár landsins, sem kemur fram í brtt. þeim, sem hér eru ræddar, er virðingarverð og á rétt á sér, því að til þess að framtíðarskipulagið hér á landi geti heitið viðunandi, þá er þetta, einmitt að brúa stórárnar, jafnvel frumskilyrðið, svo að sú hvatning er nauðsynleg og góð hvar sem er. En um aðferðina, sem gengið er inn á í þessum brtt., hvort eigi að nota sérstakan skatt, benzínskattinn, að meira eða minna leyti til þessara aðgerða, það er svo aðferðarmál fyrir sig. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég ætlast til þess, að sú siðferðiskennd verði ævinlega vakandi hjá ríkisstj. Íslands, hver sem hún er í hvert sinn, að henni sé þetta ljóst og fylgi því á eftir, að það þarf að halda áfram brúargerðum á stórám landsins meðan nauðsyn krefur, þar til lokið er. Hitt er svo allt annað mál, hvort á að láta þennan skatt og aðrar ríkistekjur, sem innheimtast í hvert sinn, svo sem hér er gert ráð fyrir, verða sérákvæði það er mál út af fyrir sig. Ég fyrir mitt leyti er á móti því að láta þessar skatttekjur verða sérákvæði, láta þetta til þess og annað til hins, í því trausti, að ríkisstj. gæti þess fyrst, sem nauðsynlegt er. En þetta er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að ég ætla að leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. um orðalag brtt. 202 frá hv. 8. landsk., ef til kæmi, að það næði samþykki. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fé brúasjóðs skal varið til brúargerða á stærstu fljót landsins, og skal byggja brú á Jökulsá í Lóni næst á eftir þeim stórbrúm, er Alþ. hefur sérstaklega ákveðið, að gangi fyrir.“ Þetta tekur af skarið. Það er viðurkennt, að þetta stórfljót þurfi að brúa, og hins jafnframt gætt, að Alþ. gangi ekki á sjálft sig og ógildi þær samþykktir, sem það hefur gert áður um vissar brýr, fyrst og fremst þá stórbrú, sem nú er verið að smíða, Þjórsárbrúna, og einnig brú á Hvítá hjá Iðu, sem samþ. hefur verið, að skuli ganga fyrir. Ég þarf svo ekki áð hafa fleiri orð um þetta, en legg til, að mín brtt. verði samþ.