15.11.1948
Efri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði hér yfir við fyrri hluta þessarar umræðu nokkrar tölur, en eins og ég tók fram þá, var það gert eftir minni, og hugsazt gat, að ég hefði ekki munað þær nógu vel. Það kom líka fram við nánari athugun dálítil skekkja, sem ég vil hér með biðja afsökunar á. Hin rétta tala þeirra, sem farið hafa út og fengið til þess gjaldeyri fyrstu 9 mánuði ársins 1948, er 4141 — eða mjög nálægt því, sem ég taldi, en svo skakkar nokkru á tölu þeirra, sem farið hafa út án gjaldeyrisleyfa. Ég taldi þá um 2.000, en inn í þá tölu koma nokkrir menn, sem komu frá útlöndum til Íslands. Á tímabilinu frá 20. apríl til 1. okt. þ. á. hafa verið gefin út leyfi til 2.038 manna, af þeim eru 415, sem heimkomnir eru frá útlöndum. Talan er því 1.623.

Ég skal svo til glöggvunar sundurliða þetta. Utan hafa farið í boði vandamanna erlendis 632; Íslendingar búsettir erlendis 18; konur námsmanna og námsfólk, er ekki fær námsyfirfærslur, 55; skipshafnir til að sækja skip, báta eða flugvélar 58; Íslendingar, er flytjast alfarnir utan, 61; sjómannakonur og börn, er koma aftur með sama skipi, 255; Íslendingar í verzlunarerindum 49; erlendir sérfræðingar til uppsetningar véla o.fl. 28; útlendingar í heimsókn til ættingja hér 41; á vegum erlendra sendiráða 12; útlendingar til atvinnu hér (aðallega vinnustúlkur) 30; Íslendingar í boði erlendra menntastofnana 32; konur. Íslendinga, er fengu gjaldeyrisleyfi, 81; Íslendingar til atvinnu erlendis 70; Íslendingar á vegum hins opinbera 46; til aðstoðar sjúklingum, er ekki geta ferðazt einir, 20; erlendir sjómenn, er veikzt hafa á Íslandi, 26; heimkomnir frá útlöndum 415; útlendingar, er fara héðan úr atvinnu, 74; ónotuð leyfi 35.

Þetta sýnir, eins og ég tók fram, að það er langt frá því, að ferðalög hafi verið afnumin. Á fyrstu 9 mánuðum ársins fá 4.141 gjaldeyrisleyfi og yfir 16 hundruð manns ferðast utan án gjaldeyris. Nánari sundurliðun hef ég ekki á þessu og enga skrá yfir það, hve mörgum hefur verið neitað. Sú n., sem fær þetta til athugunar, getur að sjálfsögðu fengið þær upp. lýsingar hjá viðskiptanefnd.

Hve mikill gjaldeyrir hefur farið í þetta get ég ekki sagt. En í gjaldeyrisáætlun ársins er gert ráð fyrir 3 milljónum. Þar hefur þegar orðið yfirdráttur, miðað við skýrslu frá 31. júlí, um talsvert á 2. millj. kr. Ég hef ekki hér við höndina skýrslu um, hvernig þetta stendur í dag, en yfirdrátturinn er nú sjálfsagt orðinn enn meiri. Annars er opin leið fyrir hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að fá upplýsingar um þetta hjá viðskiptanefndinni.

Ég hef svo ekki meira við þetta að bæta. Ég álit, að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar með fullkominni heimild, en ef til vill mætti orða þetta gleggra, og er sjálfsagt að taka það til athugunar, áður en endanlega er frá gengið.

En ég ítreka það, að rétt er að hafa í lögum heimild til þess, að hægt sé að hafa hemil á slíkum ferðalögum beinlínis, en ekki að „kontrolera“ þetta eins og nú er gert.