24.02.1949
Efri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur dvalizt nokkru lengur í n. en skyldi. N. hefur rætt um þetta mál við hæstv. viðskmrh., en hann hefur, eins og kunnugt er, lagt blessun sína yfir það, að sá framkvæmdarháttur væri hafður á um utanfarir manna eins og nú er af hendi viðskiptanefndar. Hæstv. ráðh: vildi viðhalda þessu banni, sem kannske þarf ekki að furða sig yfir. Mér skilst, að hans meginástæða fyrir því að viðhalda banninu væri það, að það yrði að vernda gjaldeyri landsmanna fyrir allt of mikilli ásækni manna til utanfara. En það, sem hér er um að ræða, er ekki það að leysa gjaldeyrisyfirvöldin undan þeirri kvöð að geta neitað um gjaldeyri til ferðalaga, þó að svo sé í mörgum nágrannalöndum okkar, að menn eigi heimtingu á því að fá hann til þess. Hér er aðeins um það að ræða, að menn megi fara frjálsir og óháðir úr landi, ef þeir engan gjaldeyri þurfa. Og þess vegna kemur afstaða hæstv. ráðh. einkennilega fyrir, þar sem meginrök hans fyrir þessari innilokun er sparnaður á gjaldeyrinum, því að hér kemur enginn gjaldeyrir til skila, þó að mörgum þús. manna sé synjað um utanfararleyfi, eins og sést hér í skýrslu viðskiptanefndar, sem n. hefur fengið. Og n. bað einnig um skýrslu frá viðskiptan., sem hér liggur nú fyrir. Fyrsta atriðið fer nokkuð á sama veg og hæstv. viðskmrh. skýrði hér frá við 1. umr. málsins. Og það sýnir þessi skýrsla, sem n. sendi frá sér, hvers konar handahófsverk hér er um að ræða með veitingar á þessum utanfararleyfum, og eins, hvað sumt af þeim verkum er bókstaflega hlægileg firra, eins og það, að það skuli þurfa leyfi frá þessari n. fyrir því, að fólk, sem er á vegum erlendra sendiráða, megi fara úr landi, eða hitt, að Íslendingar á vegum þess opinbera, sem það opinbera ætlar að senda úr landi, megi fara úr landi, að þeir þannig skuli þurfa sérstaka heimild að sækja til viðskiptanefndar til þess að mega fara úr landi. Og að ég ekki tali um erlenda sjómenn, sem lagðir hafa verið í land hér vegna veikinda. Ef hér væri um heilbrigðisvottorð að ræða, gæti ég skilið það. En að leggja þessum mönnum þá kvöð á herðar að þurfa að sækja um útflutningsleyfi fyrir sjálfa sig út úr landinu, það virðist mér bara hlægilegt. — Hér eru í skýrslunni „heim komnir frá útlöndum“ 473 menn. Ég skil það svo, að þessir menn hafi þurft að sækja um leyfi til nefndarinnar til þess að mega koma til landsins. Ég veit ekki til, að slík kvöð sé nú sett í lög, að Íslendingar megi ekki koma til landsins nema með sérstöku leyfi. Eins er það með þá útlendinga, sem hér fara úr atvinnu, sem eru taldir 144 menn, þeir þurfa líka að fá leyfi til þess að fara burt úr landinu. Og svona er margt af þessu. Nefndin er spurð um, hvað hún hafi synjað mörgum um gjaldeyrisleyfi. Hún segir: „Margar þær beiðnir, er n. berast um gjaldeyri til ferðálaga, eru yfirstimplaðar af n. með synjunarstimpli og þannig endursendar. Er þetta gert til að spara pappír og vinnu.“ — Þegar maður athugar þau vinnubrögð, sem fara fram í n. um þessar mundir, verður það broslegt, þegar n. kemur með svona ástæður fyrir því, að hún hefur ekki sínar skrár í lagi, þar sem vitanlegt er, að þessar afgreiðslur hjá n. með yfirstimplun eru af hreinasta handahófi gerðar, ja, svo að segja hverju sinni, enda hefur það komið fram, — þó að það sé ekki þessu máli skylt, — að menn hafa hvað eftir annað fengið gjaldeyrisleyfi eftir beiðnum, sem búið var að senda yfirstimplaðar af n. á þennan veg, sem ég gat um. — N. segist hafa synjað 3.100 manns um leyfi til utanfara, án þess að um gjaldeyrisleyfi væri að ræða. Hún áætlar, að með þessum yfirstimpluðu synjunum þá muni hafa verið synjað um 4 þús. manns um utanfararleyfi. Og svo segir hún að lokum: „Má því fullyrða, þegar tillit er tekið til þeirra synjana, er n. hefur gert, og þess orðróms, er skapazt hefur meðal fólks úr af þessum ráðstöfunum, að margir fleiri hefðu þó farið utan en raun hefur orðið á, hefðu þessi afskipti ekki verið við höfð.“ — Jú, það má kannske „theoretískt“ segja, að svo sé. En n. getur ekki með nokkrum snefli af fullvissu sagt um það, að allir þessir menn, sem undir þessum kringumstæðum hafa beðið um utanfararleyfi, hafi ætlað sér að fara af landi burt og að hún þess vegna hafi stöðvað svo marga menn og að mér skilst sparað svo mikinn gjaldeyri í þessum efnum. Eins og ég sagði við 1. umr., þá er þetta framkvæmt af hreinu handahófi, og það verður framkvæmt af hreinu handahófi, meðan þessi skipun er á þessum málum, sem nú er.

Ég held, að það hafi verið í desember s.l., sem Ísland undirritaði, að það tjáði sig fylgjandi svo nefndri mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þessi mannréttindaskrá er nú komin hingað í riti, sem Sameinuðu þjóðirnar gefa út. Og í 13. gr. þessarar mannréttindaskrár segir: „Everyone has the right to leave any country including his own, and to return to his eountry.“ M.ö.o., að hver einstaklingur hefur leyfi til þess að fara úr landi, þar á meðal sínu eigin landi, og koma til síns lands aftur. Nú er því sýnilegt, að þessar íslenzku innilokunarreglur og reglugerðir eru beint brot á fyrirmælum mannréttindaskrár Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er orðinn þátttakandi að. Þá er spurningin þessi: Er þessi mannréttindaskrá aðeins pappírsblað, sem hægt er að troða undir fótunum eftir vild, eða hefur Ísland tekið á sig skuldbindingar í samræmi við þessa mannréttindaskrá? Ef Ísland hefur undirgengizt þær skuldbindingar, sem hún felur í sér, á að afnema þau lög og þær reglugerðir, sem fara í bága við þessa skrá. Hér er nú enginn ráðh. viðstaddur til að svara slíkum fsp., og ég vil því beina þeirra fsp. til utanrmn., hvort mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna skuldbindi ekki móralskt þær þjóðir, og þá um leið Íslendinga, sem hafa gerzt aðilar að henni, hvort hún hafi ekki í för með sér beinar og óbeinar skuldbindingar í samræmi við það, sem ég hef sagt. Ég óska eftir, að svar komi fram við þessu. Og hví væri þá þetta litla ríki að gera sér þá háðung að undirrita samninga í samfélagi þjóðanna, ef það ætlaði ekki að halda þá og sínar skuldbindingar?

Hv. dm. hafa eflaust tekið eftir dómi, sem nýlega féll hér í undirrétti í máli, sem einn kaupsýslumaður höfðaði gegn viðskiptanefnd fyrir að synja honum fyrst um gjaldeyrisleyfi til utanfarar og síðan um utanfararleyfi án gjaldeyris. Ég ætla ekki að fara að gera þennan dóm að umræðuefni hér, en get þó ekki alveg orða bundizt um hann, svo einkennilegur virðist mér þessi dómur, en málið mun nú ganga til hæstaréttar, og þá fæst endanlega úr því skorið, hvort innilokunarreglurnar styðjast við lagastaf eða ekki. Hins vegar kemur það fram í málssókn gegn hinu opinbera, að hið opinbera virðist næstum grunsamlega oft vinna þau mál, sem höfðuð eru gegn því. Ég fer ekkert inn á greinargerðina fyrir niðurstöðum þessa dóms, af því að ég tel það ekki þess vert á þessu stigi málsins. En ég vil geta þess, að ég frétti það nýlega, eða las í blöðum, að Danir, sem eru taldir mjög illa stæðir gjaldeyrislega, hafi birt yfirlýsingu þess efnis, að hver Dani, sem vill fara utan til tiltekinna landa, — það eru 6 eða 7 lönd, sem um er að ræða, — fái 500 krónur danskar til fararinnar. Ég gæti hugsað mér, að þessi breyting hjá Dönum væri beint í framhaldi af skuldbindingum þeim, sem þeir hafa undirgengizt með aðild sinni að mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna. En svo förum við í þveröfuga átt við þetta. Við ætlum ekkert að anza þeim skuldbindingum, sem við höfum undirgengizt, en aðrar þjóðir álíta ferðafrelsið svo mikils virði, að þær skuldbinda sig af litlum efnum til að veita sérhverjum, sem úr landi vill fara, ákveðinn farareyri í erlendum gjaldeyri.

Þetta frv. fer í fyrsta lagi fram á það, að ekki megi banna mönnum brottför úr landi; í öðru lagi, að gestrisni í öðrum löndum megi endurgjalda með gestrisni hér á landi. Þetta eru svo sjálfsögð mannréttindi, að ég þarf ekki að eyða orðum að því, ef menn hafa tækifæri á að gera þetta. Og að svo stöddu ætla ég ekki að fara nánar út í þetta mál, en vænti, að hv. d. sjái svo um, að þessi breyting nái fram að ganga.