24.02.1949
Efri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég kann ekki við, að þetta mál fari svo út úr d., að ekki heyrist hér einhver rödd, sem a.m.k. dragi í efa, að frv. þetta stefni í rétta átt. Við 1. umr. málsins gerði hæstv. viðskmrh. allýtarlega grein fyrir ferðalögum Íslendinga til útlanda á s.l. ári, og virtist tala þeirra, sem fóru utan og fengu leyfi til þess, sízt vera lág. Nú sé ég af áliti fjhn., að lítið er hægt að átta sig á því, hver niðurstaðan hafi eiginlega orðið í n., og harma ég það, að nm. skuli ekki treysta sér til að leggja málið glöggvar fyrir aðra dm. eftir athugun í n. Aðeins 2 þeirra mæla með frv., en afstaða hinna nm. er eiginlega hulin okkur hér í d. Þess hefði þó mátt vænta, að sjónarmið þeirra kæmi einnig fram, en ekki aðeins sjónarmið þeirra 2, sem mæla með frv., og verð ég að segja, að mér líkar ekki þessi afgreiðsla á þessu viðkvæma máli. Hitt er augljóst, að sú breyt., sem hér er farið fram á, miðað við núgildandi lög, er allveruleg og opnar gátt, sem öll lög um gjaldeyrisverzlun, gjaldeyrissparnað og gjaldeyriseftirlit á síðari árum hafa verið að reyna að troða upp í, að fólk flykkist til útlanda að nauðsynjalausu. Ég tek undir það, að æskilegt væri, að okkar þjóðfélag sem önnur gæti veitt þetta frjálsræði, en það koma fyrir tímar, sem þjóðirnar, okkar þjóð sem aðrar, hafa ekki þau gjaldeyrisráð, að hægt sé að veita það eins og menn æskja. Við vitum, að hér á landi er stór hópur fólks, sem hefur fjárráð í íslenzkum krónum til að fara út og skemmta sér og fræðast jafnvel á slíkum ferðalögum, en hins vegar er oft ekki til erlendur gjaldeyrir, eða þá mjög takmarkaður, og verður fyrst og fremst að nota hann til að flytja inn almennar nauðsynjar. Það, sem skeð hefur, er það, að við höfum orðið að takmarka gjaldeyri til ferðalaga vegna takmarkaðs gjaldeyris til nauðsynjakaupa, og ég hygg, að ef fram færi skoðanakönnum meðal þjóðarinnar um nauðsyn ferðalaga til útlanda almennt, þá mundi mikið af því verða dæmt það, sem kallað hefur verið lúxusflakk. Ég segi ekki, að það sé fallegt orð og, og í augum almennings er það ekki hátt skrifað, a.m.k. ekki í augum þeirra, sem vantar sjálfa fé til að ferðast, hafa ekki ráð á því, þótt gjaldeyrir væri fyrir hendi.

Hv. frsm. var að vitna hér í það, sem ég vildi fá upplýst, en það var það, að jafnvel erlendir menn, sem hingað koma af tilviljun, en ekki eigin ósk, svo sem vegna þess, að þeir eru settir hér í land um stundarsakir vegna sjúkleika, þyrftu að fá leyfi til að fara aftur úr landinu. (BÓ: Þetta er tekið úr skýrslu n.)

Segir hún það? Þá tel ég vera nokkuð langt seilzt til lokunnar, ef útlendingar, sem hér eru settir í land vegna slysa t.d., þurfa að fá leyfi til að fara aftur úr landinu, og á ég erfitt með að melta það, að lög geri ráð fyrir því. Það hlýtur að vera hægt að leysa þetta mál út af fyrir sig eða leiðrétta.

Svo er það mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna, sem hv. frsm. breiddi sig mjög út yfir. Ég skal játa, að ég veit ekki með vissu, hvort hún hefur verið til fulls viðtekin eða lögfest hjá okkur, það veit hv. utanrrh., en hann er ekki staddur hér í svipinn, og ég skal játa, að ég er ekki kunnugur þessari skrá í smærri atriðum. Og því vildi ég spyrja, hvort ekki mundu vera einhverjar undantekningarreglur í þessari mannréttindaskrá varðandi t.d. ferðafrelsi í því tilfelli, að um takmarkaðan gjaldeyri þjóðar væri að ræða, því að hugsanlegt er, að ríki hafi á ýmsum tímum svo takmarkaðan gjaldeyri, að hann yrði að nota til enn þá brýnni hluta en ferðalaga almennt. Við vitum báðir, hv. frsm. og ég, að undirstöðu mannréttindaskrárinnar er ekki beint gegn hinum vestrænu ríkjum, þar sem fullt frelsi ríkir, heldur er t.d. þessu.m ákvæðum um ferðafrelsi beint gegn þeim löndum, sem fólk fær ekki að yfirgefa. Þetta er fyrst og fremst komið fram gagnvart slíkum löndum, en ekki þeim löndum, sem leyfa ferðalög eins og hægt er eftir efnum og ástæðum. Ég get ekki skýrt undirstöðu mannréttindaskrárinnar öðruvísi eftir því, sem ég hef lesið um hana og vitað túlkað í blöðum.

Nú vitnaði hv. 1. flm. og frsm. þessa máls í Dani, að þeir hefðu tekið upp þá reglu að veita öllum, sem vildu, ákveðinn farareyri í erlendum gjaldeyri, ef ferðazt væri til tiltekinna landa. Þetta er rétt eftir nýjustu heimildum, það eru 500 krónur danskar, sem hver fær. Allt fram til síðustu tíma hafa Danir takmarkað mjög gjaldeyri til ferðalaga til Svíþjóðar og Noregs, þótt ekki sé lengra að ferðast þangað en héðan upp á Akranes. En svo naumt var þetta skammtað, að ég talaði við Dani 1947, sem sögðu, að það borgaði sig ekki og væri ekki hægt að fara til þessara landa, þó að það væri leyfilegt að nafninu til og svo væri látið heita, að gjaldeyrir væri veittur til fararinnar. En sá gjaldeyrir var að auki ekki veittur nema til sérstakra landa. Ég býst nú við, að ríkisbúskapur Dana og hagur hafi rétt svo við eða fari svo batnandi, að þeir geti leyft sér að rýmka um gjaldeyrisveitingar til ferðalaga, og mun það vera ástæðan til þessarar rýmkunar, en ekki mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Sama var í Noregi og Danmörku. Ég þekki persónulega norskan fiskifræðing, sem kom hingað ekki alls fyrir löngu og fékk 300 krónur norskar í allt til fararinnar og til að dveljast hér og ferðast um. Honum var að vísu ekki bannað að fara, en eins og hann sagði sjálfur, þá hrökk þessi farareyrir ekkert. Norðmenn hafa orðið að skammta gjaldeyri sinn svo naumt til ferðalaga, að það er sama sem að banna ferðalög í raun og veru. Bretar hafa haft frjálsan farareyri til Íslands og Færeyja, af því að það var fyrir fram vitað, að svo fáir mundu leggja leið sína til þessara eyja, og það má vel vera, að þeir séu að rýmka. um í þessum efnum vegna batnandi þjóðarhags. — En hvernig er gjaldeyrismálunum háttað hjá okkur? Síðan við átum upp erlendu innstæðurnar, hefur ekki linnt óskum um innflutning á öllum sviðum, t.d. til húsabygginga og klæðnaðar, og við verðum að gera það upp við okkur, hvort við eigum heldur að takmarka ferðalög eða hætta á, að þjóðin geti ekki fætt sig og klætt. Þessi takmörkun ferðalaga er sett af illri nauðsyn, það vita allir. En þessi takmörkun hefur þó ekki verið meiri en svo, að á 9 mánuðum árið 1948 voru veitt 4.109 leyfi til ferðalaga utanlands, og eru þá ekki meðtaldir starfsmenn, sem ferðast með flutningatækjum okkar, skipum og flugvélum.

Ég held nú satt að segja, að krafan bak við frv. hjá hv. flm. sé meira sprottin út frá fáum einstaklingum en mörgum meðal þjóðarinnar. Hann minntist hér áðan á mál, sem höfðað var gegn viðskiptanefnd út af synjun um utanfararleyfi, og átti þar í hlut maður úr kaupsýslustétt, sem sennilega hefur viljað vera sólardagana erlendis jafnframt viðskiptaerindum sínum. Meðeigandi hans í fyrirtækinu var nýbúinn að vera erlendis, svo að ástæða er til að ætla, að hann hafi ekki endilega þurft að sinna brýnum verzlunarerindum, þessi maður. Ég hygg, að það séu frekar hinir fáu, en hinir mörgu, sem hv. flm. ber fyrir brjósti við flutning þessa frv. Á hinn bóginn skal ég játa, að mig brestur að sjálfsögðu margskonar kunnugleik í smáatriðum, — ég hef ekki fengið neinar skýrslur og ég hefði óskað, að n. flytti rök með og móti þessu máli inn í d., úr því að hún er ekki sammála, en þar hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Ég mun því greiða atkvæði gegn málinu, þar eð ekkert hefur komið fram nýtt í því við þessa umr., sem ég get séð, að réttlæti flutning þess, en við 1. umr. voru, flutt hér fram þau rök gegn málinu, sem ekki hefur verið hnekkt og ég verð að virða.