24.02.1949
Efri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Gísli Jónsson:

Ég vil nú mjög taka undir það með hv. 1. landsk., að æskilegt hefði verið og sjálfsagt, að n. hefði gefið ákveðnar leiðbeiningar í þessu máli. Hér er ekkert smámál á ferðinni, þó að þannig sé látið líta út. Það er mál, sem sker úr um það, hvort Íslendingar eiga að hafa frelsi og vera frjálsir menn eða fangar og þrælar og innilokaðir. Mér þykir merkilegt, að hv. fjhn. skuli ekki hafa séð sér fært að segja álit sitt á slíku, máli.

Það hefur tvennt skeð síðan þetta frv. var hér síðast til umræðu. Annað er það, að dómur hefur verið felldur, sem staðfestir innilokunarstefnuna, og hitt er það, að lagður hefur verið 75% tollur á ferðafé. Maður skyldi nú ætla, að þessi gífurlegi tollur þætti nægilegur til að stöðva þau, ferðalög úr landinu, sem talin væru óþörf, svo að óhætt væri að leyfa þeim að fara úr landi, sem vildu vinna þetta til. Nú skal ég ekki spá fyrir um það, hve mikið innheimtist af þessum tolli, og fer það að sjálfsögðu eftir því, hvernig þeim ákvæðum er beitt, sem innflutnings- og gjaldeyrisyfirvöldin bera fyrir sig í því að banna fólki að ferðast. Ef þeim er beitt mjög, kann að fara svo, að lítill tekjustofn verði að þessum tolli.

Og svo er það mannréttindaskráin, sem þjóðin hefur undirgengizt. Hún áskilur það frelsi, að menn megi ferðast til landsins og frá því, og eins er þá skylt að veita mönnum gjaldeyrisleyfi til ferðalaga, ef menn vilja notfæra sér þetta frelsi. Samkv. þessu frv. er sú kvöð og lögð á ríkið að veita nauðsynlegan farareyri í samræmi við þetta, enda hafa allar þjóðir, sem að mannréttindaskránni standa, talið sér skylt að gera þetta. En hv. 1. landsk. komst alveg inn að hjarta þeirrar stefnu, rússnesku. stefnunnar, sem vill banna utanfarir með öllu.

Sú breyting, sem hér er lagt til, að gerð verði á lögunum, er eiginlega tvenns konar: Í fyrsta lagi að leyfa mönnum að semja um uppihald erlendis gegn sams konar fríðindum hér, en það er nú bannað samkv. 4. gr. núgildandi laga. Út af fyrir sig gæti ég fellt mig við, að þetta stæði áfram óbreytt í lögunum og félli niður úr þessu frv., ef 1. málsl. um, að eigi mætti banna brottför úr landi, héldist í frv. og yrði að lögum, því að það er meginatriði málsins. Og ég vil fullvissa hv. þm. um það, að þótt þetta frv. yrði fellt hér nú, þá verður baráttunni ekki hætt. Það verður ekki leyft til lengdar, að lögfestir séu átthagafjötrar á fólkið í landinu. Nú hefur hv. 1. landsk. talið, að þessir fjötrar væru ill nauðsyn, en þó verið þeim meðmæltur. En það er ekki hægt að fara svona að. Í fyrsta lagi: Hvernig getur ein nefnd, sem skipuð er fimm mönnum, komizt í gegnum það að vega og meta skýrslur fjölda fólks, sem óskar þess að fá leyfi til þess að fara til útlanda? Ég er hræddur um, að það þyrfti að fjölga eitthvað í n., til þess að hún gæti annað slíku, — og á svo að setja það á vald einnar nefndar, hvort þessi eða hinn megi skreppa til suðrænna landa og sóla sig eða í öðrum erindum? Hvaða skilyrði ætli viðskiptanefndin hafi til að mæla og meta eftir varðandi mál hvorki meira né minna en 4–5 þús. manna, sem telja sig þurfa að fara til annarra landa og sóla sig eða í öðrum erindum? Trúir hv. 1. landsk. því, að það mat sé ávallt réttmætt? Þarna liggur hin mikla hætta, hvað hægt er að misbeita þessu valdi á eldri mönnum jafnt sem yngri. Þeim ungu er e.t.v. meinað að afla sér þýðingarmikillar menntunar í öðrum löndum. Þeim eldri er meinað að fara út til þess að leita heilsubótar og nýs starfsþrótts, að ekki sé talað um þá menn, sem leita til fjarlægra landa í leit að mörkuðum fyrir íslenzkar afurðir eða leita hagkvæmra innkaupa fyrir þjóðina á nauðsynjum hennar. Í slíkum tilfellum getur hér verið um mikla fjárhagslega þýðingu að ræða gjaldeyrislega séð. Þess vegna er hér mikil hætta á ferðum, meðan slík lög sem þessi eru í landinu. En þó að þessu verði ekki breytt hér nú, þá verður baráttan tekin upp aftur. Það er síður en svo sæmandi fyrir menningarþjóð, sem vill telja sig frjálsa, er menn leita eftir gjaldeyri til þess að fá að fara til útlanda, að slíkt sé í valdi einnar nefndar, sem hefur nógum öðrum störfum að sinna. Hitt skil ég mæta vel, að yfirvöldin séu í vanda stödd, hvernig eigi að verja gjaldeyrinum. Það er vandi að skipta þessum 5–8 millj. kr. milli þeirra manna, sem sækja um gjaldeyri til utanfarar, og ætti því sízt að meina þeim að fara, sem engan gjaldeyri þurfa. Og nú hefur ein síðasta ráðstöfun Alþ. hlúð að því, að illa fenginn gjaldeyrir sé notaður erlendis af mönnum, sem kunna að eiga erlenda peninga. Alþ. hefur gefið þeim mönnum tækifæri til að selja sitt illa fengna fé með 75% álagi. Ef menn þurfa að fá 5 pund eða 10 kr. danskar, þá verða menn að greiða þær með 75% álagi í leyfisgjald. Þessi tollur á leyfunum opnar allar dyr upp á gátt fyrir hærri sölu á gjaldeyri, en áður hefur þekkzt. Ég held, að það takist ekki að setja undir þann leka. Ef meiri hl. fæst ekki til samþykkis þessu frv., hlýtur það fyrst og fremst að vera vegna þess, að menn setji allt sitt traust á hæstarétt, þannig að hann felli dóm, sem nýlega féll í máli manns nokkurs, sem viðskiptanefnd synjaði um utanfararleyfi. En ef sá dómur verður staðfestur, mun baráttunni fyrir þessu máli ekki linna, að einhvers konar ráð geti ekki ráðið því, hve margir menn séu frjálsir og hve margir séu þrælar í landi sínu, líkt og í Rússlandi. (SÁÓ: Þetta á ekkert skylt við það.) Veit hv. þm. ekki, að þetta vald er gefið n., sem skipuð er 5 mönnum? Hv. þm. veit það, að þetta ráð hefur ekki tíma til að afgreiða þær umsóknir frá einstaklingum, sem berast, a.m.k. ekki ofan í kjölinn, en setja stimpilinn á — vær saa god, — þú færð ekki að fara. Þó að hv. 1. landsk. hafi andúð á verzlunarstéttinni, þá geta það verið gjaldeyristekjur að leyfa mönnum að ná í ódýrari vörur og selja hærra innlenda framleiðslu. Það getur verið dýrt að banna mönnum að ferðast í slíkum erindagerðum, og jafnvel þó að þeir noti einn og einn dag til að sóla sig. Meginatriði málsins er það, að þetta er smán, sem verður að létta af, að menn megi ekki hreyfa sig út fyrir landsteinana. Þeirri smán verður að létta af.