28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það hefur ekkert nýtt komið fram í málinu síðan síðast, er það var til umr., og mjög lítið, sem ég sé ástæðu til að svara. — Hv. þm. Barð. sagði við þessa umr., að hér væri um mjög stórt mál að ræða, en hann er á annarri bylgjulengd, en ég, á hvern hátt það er stórt. Ég get ekki skilið það slagorð, að menn séu settir í þrælahald í þessu landi, þó að utanferðir séu háðar takmörkunum. Ég hef alltaf litið svo á, að sá væri þræll, sem væri undir ánauðaroki harðstjóra og kúgaður sem vinnuþræll. En að hafa svo stór orð að segja, að menn séu hnepptir í þrældómsviðjar, þó að ekki sé hægt að fullnægja óskum þeirra í hvert skipti, sem þeim dettur í hug að fara til annarra landa, það verður maður að kalla nokkuð stór slagorð, og ég geri ekki ráð fyrir, að svona slagorð verki á nokkurn mann, því að þau, eiga ekki stoð í sambandi við svona mál.

Þá taldi hv. þm. Barð. enn fremur, að andstaða mín gegn þessu frv. væri fyrir þá einu sök, að ég teldi, að hér væri um kaupsýslustéttina eina að ræða, sem hömlur væru settar á, og væri það ekki undarlegt, að hann sagði, því að ég mundi fyrirlíta þessa stétt allra stétta mest. Ég skal gefa þá hreinskilnislegu játningu, að ég er ekki í hópi þeirra manna, sem líta á verzlunarstéttina sem óþarfa stétt í þessu landi og yfirleitt. Að vísu eru til innan þeirrar stéttar menn, sem ekki eru til sóma, en það er í öllum stéttum. Innan þessarar stéttar eru menn, sem hafa unnið fyrir þjóð sína mikið og merkilegt starf sem kaupsýslumenn. Og ég hygg, að ef um einhverjar takmarkanir í sambandi við utanferðir er að ræða varðandi verzlunarmenn, sé það sá hluti verzlunarstéttarinnar, sem telst ekki þarfur sem helzt mundi leita út fyrir landsteinana. Ég verð að segja, að ég geri þar upp á milli manna, hvaða stétt sem þeir tilheyra, hvort heldur það eru verzlunarmenn eða aðrir, og skal ég ekki fara frekar út í það, en vildi aðeins hnekkja þessum ranga dómi, að ég sýni nokkurn fjandskap í garð kaupsýslustéttar þessa lands.

Ég vil svo aðeins geta þess, að ég er ekki enn þá farinn að heyra þau rök, sem mæli með því, að l. verði breytt, sérstaklega þegar þess er gætt, að horfur hjá okkur um gjaldeyrisöflun og gjaldeyrismöguleika eru ekki betri, en raun ber vitni um. Ég er á móti því að gefa einstökum mönnum aðstöðu til þess, eins og gert er hér með þessu frv., að eyða erlendis eins og þeim þóknast földum gjaldeyri, e.t.v. illa fengnum. Ég vil alls ekki eiga neinn þátt í að greiða fyrir slíku, að farið verði að rýmka á þessu sviði frá því, sem verið hefur, og er ég þess vegna algerlega á móti því að fara að breyta lögunum nú á þessu þingi.