28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi standa upp til þess að gera grein fyrir því, hvernig ég mun greiða atkv. í þessu máli, sem er dálítið einstakt og hefur nú verið rætt bæði frá hálfu flm. og annarra þdm.

Þegar núgildandi ráðstafanir voru ræddar í ríkisstj., var ég því mjög mótfallinn, að þær kæmust í framkvæmd, og færði þá fram ýmis rök, sem mér virtust liggja beint við, til þess að benda á, að þetta mundi þykja óréttlátt, og í öðru lagi lét ég í ljós fullan efa á því, að það yrði það gagn að slíku banni, sem virtist vaka fyrir mönnum, sérstaklega vegna þess, að bönn yfir höfuð verka oft frekar eggjandi á fólk, og alveg sérstaklega ef bannið er þess eðlis, að það samrýmist ekki því, sem kallað er heilbrigð skynsemi. Ég mun því með atkv. mínu greiða fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga, og er það í fullu samræmi við þær skoðanir, sem ég hef á ferðabanni yfirleitt og lét í ljós, þegar þetta var rætt í ríkisstj. á sínum tíma.