18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég vil benda hv. síðasta. ræðumanni á það, að samkvæmt einróma ályktun sameinaðs Alþ., er ríkisstj. falið að sjá um að brú á Hvítá hjá Iðu verði gerð 1948, og efa ég ekki, að sú framkvæmd væri hafin, ef ekkert sérstakt stæði í veginum. Það varð sem sé að láta Þjórsá ganga fyrir, það var að berja höfðinu við steininn, hefði ,sú nauðsyn ekki verið játuð. Með þessu hafa stjórnarvöldin og hlutaðeigandi ráðh. játað, að Iðubrúin ætti að koma næst á eftir Þjórsá (Fjmrh.: Það er um það að ræða, þegar þessu er mótmælt, að slíkar alþingissamþykktir séu að engu hafðar, að ég vil ekki fyrr en í síðustu forvöð leggja þá merkingu í ályktanir Alþ., því að þær eru gildandi sýnishorn af vilja þess engu siður, en lagasetning. Vildi ég láta þetta koma skýrt fram vegna ummæla hv. 8. landsk.)

Hv. 8. landsk. talaði um, að það væru svo margar brýr á Hvítá, en engin á Jökulsá í Lóni. Það er nú svo. Ég heimska mig ekki á að halda því fram, að ekki sé nauðsynlegt að brúa Jökulsá í Lóni. En varðandi Hvítá þá eru nú ekki nema tvær brýr á því mikla vatnsfalli, því að vitanlega er ekki hægt að telja ferðamannabrúna við Hvítárvatn þar með sem almenningsbrú. Vegna þess, að brú vantar á Hvítá, er læknishérað höggvið í sundur og fjölmennar og blómlegar sveitir fyrir nútíð og framtíð einnig sundurskornar af þessum farartálma í miðju héraði. Því er það, að Alþ. fékkst til að samþ. þessa brú og í þessa framkvæmd verður ráðizt. Hitt er svo rétt, ef við færum að athuga brúamál allt í kringum landið, að þá kæmu víða fram einkennileg hlutföll í þeim málum og framkvæmdum.