22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í umr. um þetta mál. Það er nú svo með þetta mál eins og svo mörg önnur, að afgreiðsla þess fer mikið eftir viðhorfi manna til ríkisstj., og sannleikurinn er sá, að það má benda á ýmis atriði varðandi það, sem fram kom hjá hv. frsm. minni hl: og eins hjá hæstv. viðskmrh., sem gott væri að hafa taumhald á, en svo er þar aftur aragrúi af atriðum, sem menn hafa skiptar skoðanir um.

Margir eru þeirrar skoðunar, að ýmis þau höft, sem nú eru í lögunum og eru mönnum til mikils óhagræðis almennt, vegi upp á móti því, að með því sé hægt að hafa hendur í hári Péturs eða Páls.

Hæstv. ráðh. taldi það aðalatriði af sinni hálfu, að með þessu væri verið að sleppa seinustu möguleikunum til að hafa uppi á innstæðum erlendis. Samkvæmt áliti minni hl. hefur um 500 beiðnum um ferðaleyfi án gjaldeyris verið synjað frá 20. apríl til 31. okt., en á sama tíma hafa verið veitt 2.273 ferðaleyfi án gjaldeyris. Eftir rökstuðningi hæstv. ráðh. ætti þarna að hefja rannsókn og fara betur í að skoða málefni þessara 500 manna, því að líkur gætu verið á, að þessir menn ættu innstæður erlendis eftir málflutningi hæstv. ráðh. Mér þætti fróðlegt, að þm. kynntu sér þessi 500 nöfn, sem synjað var um ferðaleyfi án gjaldeyris, og ég er sannfærður um, að ekki verða leiddar líkur að því, að þetta séu menn, sem kynnu að eiga verulegar innstæður í útlöndum. Eins og hæstv. ráðh. sagði, þá telur hann þetta aðalatriði og einu leiðina til að hafa upp á innstæðum erlendis, en mín skoðun er sú, að þetta sé þýðingarlaust atriði til að hafa upp á innstæðum erlendis, sérstaklega af því, sem ég hef haldið fram, og einnig af hinu, að ef aðili á innstæðu erlendis og biður um ferðaleyfi til þess að geta farið út, en fær ekki leyfi, — ætli hann mundi þá koma og skila gjaldeyrinum? Ætli hann reyndi ekki að fara aðra leið til að hagnýta þennan gjaldeyri? Hann gæti kannske selt þennan gjaldeyri á svörtum markaði fyrir hagstæðara verð, en gengisskráningin er. Hæstv. ráðh. lýsti yfir, að þetta væri eina leiðin til að hafa upp á innstæðum erlendis. En ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að það er ekki vitað, að neitt hafi verið gert á grundvelli þessara l., sem miði að því að hafa upp á innstæðum erlendis. Að lokum þetta: Mér sýnist, samkvæmt upplýsingum í nál. minni hl., að þetta sé ekki svo veigamikið. Það eru m.ö.o. hlutfallslega fáir menn, sem hefur verið synjað um ferðaleyfi án gjaldeyris, miðað við veitt ferðaleyfi án gjaldeyris, og það dregur úr ástæðunum til að halda þessu í l. Það er meira og minna handahófslegt, hverjir fá slík ferðaleyfi án gjaldeyris, og mér er ekki grunlaust um, að það geti farið eftir mismunandi hæfileikum manna til að gera viðskiptan. sennilega grein fyrir því, hvernig þeir geti komizt af án þess að fá gjaldeyri. Og þegar litið er á það, að á sama tíma sem 2.273 leyfi eru veitt án gjaldeyris er aðeins 500 beiðnum synjað, þá eru það einnig rök fyrir því, að það sé ekki þörf á að halda þessu áfram í I. — Það eru aðeins þessi atriði, sem ég að svo komnu máli vildi ræða.