23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er viðbúið, að ég hafi ekki orðað nógu greinilega það, sem ég meinti, a.m.k. virðist hv. 7. þm. Reykv. ekki hafa skilið mig, og skal ég því taka dæmi máli mínu til skýringar. Á s.l. ári voru veitt gjaldeyrisleyfi til ferðalaga hátt á þriðja þúsund manns. Verulegur hluti þessara ferðalaga var þess eðlis, að þau komu undir ákvæðin um skattgreiðslu til dýrtíðarsjóðs með 75% álagi. Margir þeirra, sem þannig fengu gjaldeyri, hefðu haft möguleika til þess að afla gjaldeyris í skiptum hjá kunningjum og vinum, sem komið hefðu til Íslands, ef slíkt hefði ekki verið bannað. Þetta tók hv. frsm. meiri hl. fram í gær og eins þegar l. voru til umr. á sinni tíð og sagðist þá vera á móti því, að l. væru eins og þau eru, en það hefur valdið því, að menn hafa ekki farið út í svona samninga. Nú er þetta ein aðalbreytingin í frv., að menn eru beinlínis örvaðir til slíkra samninga. Afleiðingin af þessu verður svo sú, að þeir, sem áður keyptu ferðagjaldeyri skv. l. eins og þau eru, þeir geta nú, ef frv. verður samþ., gert samninga, sem þeir ekki gátu áður, og þessi ferðagjaldeyrir, sem er veittur mörg hundruð mönnum, hverfur og sömuleiðis þær gjaldeyristekjur, sem þeir, er til landsins koma, hafa greitt til bankanna. Þetta ætti hv. 7. þm. Reykv. að skilja, ef hann hugsar um það, og það veit ég, að hann gerir. Það má segja, að viðskiptanefnd losni við útlát á gjaldeyri með þessu móti, en þá missir hún líka allt kontrol yfir þessum málum. Hitt, sem ég sagði í gær, að þetta væri einn af þeim fáu möguleikum til þess að komast eftir leyndum gjaldeyri erlendis, þá held ég, að það sé rétt, enda hefur því verið haldið fram, að þegar menn færu til útlanda án gjaldeyris, þá ráðstöfuðu þeir erlendis sínum földu fjársjóðum. Þriðja atriðið, sem ég vildi minnast á, er svo frelsisskerðingin, sem sízt minnkar, þótt frv. verði samþ., og skal ég taka dæmi því til sönnunar. Eftir l. nú geta börn boðið foreldrum í ferðalag til útlanda, og sama gildir um önnur náin skyldmenni. Ef t.d. Íslendingur á börn í útlöndum og þau bjóða honum í heimsókn, þá getur hann farið hömlunarlaust, en skv. frv. má hann það ekki, ef hann skuldar útsvör eða skatta. Sem sagt, maður, sem samkv. gömlu l. mátti fara, hann yrði nú að sitja heima, ef hann gæti ekki greitt sín gjöld til bæjar eða ríkis, þ.e.a.s. hann væri settur til baka, af því að hann væri fátækur, en ekki vegna þess, að hann gæti ekki gert grein fyrir því, hvernig hann hefði aflað gjaldeyris. Sá, sem á gjaldeyri erlendis og getur greitt gjöld sin, hann á að geta farið ferða sinna, en hinn, sem hefur möguleikann til að ferðast vegna ættmenna sinna erlendis, en getur ekki greitt sín gjöld, hann á ekki að geta farið. Hann er raunverulega settur í skuldafangelsi, og það er ekki minni frelsisskerðing en sú, sem felst í l. eins og þau eru nú.