18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér í reiptog þeirra hv. 2. þm. Árn. og hv. 8. landsk. um það, í hvaða röð sé réttast að brúa stórárnar í landinu, um það mætti deila óendanlega. Ég vil aðeins segja það í því sambandi, að ég fellst ekki á það sjónarmið að brúa fyrst á fjölförnustu leiðunum og í þéttbýlustu héruðunum undir öllum kringumstæðum. Það er þegar víða búið að brúa stórfljótin, þar sem þéttbýlast er, hins vegar eru líka víða stórfljót í fámennum sveitum, sem nauðsynlegt er að brúa, og það er ekkert réttlæti í því að fjölförnu héruðin, þótt þéttbýl séu, fái margar brýr, áður en þessi fámennu héruð með stórfljótunum fá neina brú.

Viðvíkjandi því, sem hefur verið rætt um þetta frv. að öðru leyti, vil ég sérstaklega víkja að sjónarmiði hv. 1. þm. N–M. Mér finnst hugsanagangur hans í þessu máli mjög eðlilegur. Það er verið að taka þrisvar eða fjórum sinnum til þessa máls, eða verður gert að manni skilst, þótt tíminn sé naumur til að viðhafa slík vinnubrögð. Ég skil ekkert í hæstv. ríkisstj. að láta málið nú bera þannig að, ef nú á að fara að feila brtt. hv. 1. þm. N-M. um smávægilega hækkun á benzínskattinum, en samþykkja svo innan skamms í vetur stórvægilega hækkun á sama skatti. Hitt hefði verið rökréttara, að hækka skattinn þá stórkostlega fyrst og lækka hann síðar eitthvað, í stað þess að fella fyrst smáhækkun og samþykkja litlu síðar stórvægilega hækkun. Ég skil ekki þetta sjónarmið fremur en ýmsir fleiri dm. Ég skal játa, að ég tel vel hægt að samþykkja mjög verulega hækkun á benzínskatti, því að benzínverð er miklu lægra hér, en í nágrannalöndunum, eða 69 aurar hér í Reykjavík og yfir 70 aurar úti um land. Ég tel því miklu minna neyðarúrræði að afla fjár til ríkisþarfa með hækkun á benzínskattinum, en eftir ýmsum öðrum leiðum, sem ríkið neyðist nú til að fara. Ég tel mig því standa illa að vígi með að fella smávægilega hækkun á þessum skatti, þegar ég tel forsvaranlegt að ganga inn á stórkostlega hækkun á honum. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki lagt kapp á að láta málið bera þannig að, sem hefði verið miklu eðlilegra.