23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er í sambandi við tap dýrtíðarsjóðs, sem hæstv. viðskmrh. hélt fram, að yrði ef frv. væri samþ., og verð ég að segja, að þótt ráðh. hafi nú gefið sínar upplýsingar, þá hef ég enn ekki sannfærzt. Hæstv. ráðh. segir, að um 2.800 manns hafi fengið fararleyfi hjá viðskiptanefnd á s.l. ári og ef nú væri heimilt að fara án leyfis hennar til útlanda, þá mundu svo og svo margir útvega sér gjaldeyri annars staðar til þess að sleppa við 75% gjaldið, og svona langt erum við samferða, og ef við miðum við þessa 2.800, þá mundu það verða eitthvað færri, sem færu hina gömlu leið, og ef ekki er lengra hugsað, þá mundi dýrtíðarsjóður tapa, en ef þetta væri allur sannleikurinn, þá væri hann byggður á því, að ekki hefðu verið fleiri um boðið, en þessir 2.800, en það segir bara í nál., að 4.000 manns hafi verið synjað um fararleyfi af viðskiptanefnd, og er því haldið fram, að eftirspurn eftir ferðagjaldeyri sé svo miklu meiri, en viðskiptanefnd gæti svarað játandi, að dýrtíðarsjóður mundi engu tapa við samþ. frv. Skal ég svo ekki ræða þetta frekar.