26.04.1949
Neðri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í umræðunum um mál þetta í gær kom það fram víðar að, en úr einni átt, að menn óttuðust, ef frv. þetta yrði samþ., að það hefði þau áhrif, að drægi úr tekjum dýrtíðarsjóðs frá erlendum ferðamönnum, einkum vegna þessa ákvæðis í 2. gr.: „Einstaklingar, búsettir hér á landi, hafa heimild til að semja við erlenda aðila um uppihald erlendis fyrir sig og sína gegn endurgreiðslu með sams konar greiða hér á landi.“ Hæstv. fjmrh. tók undir þessa skoðun, ef ég hef skilið hann rétt. Virtist hann hafa hug á því, að brtt. kæmi fram, sem hindraði þetta. En nú hefur engin slík brtt. komið fram, og vildi ég nú freista þess að lagfæra þetta, svo að slíkir samningar yrðu bannaðir. Eigi að síður yrðu í l. ákvæði þau, sem felast í 1. gr., og það ákvæði í 2. gr., að eigi megi „setja reglur samkvæmt lögum þessum, er banna mönnum brottför úr landi.“ Þó hef ég ýmislegt við það að athuga. Ég óska því að fá að leggja fram skriflega brtt. við 2. gr., svo hljóðandi: „Greinin falli niður, að undanteknum fyrsta málslið.“