03.05.1949
Efri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

204. mál, einkasala á tóbaki

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Út af því, sem 4. landsk. þm. (BrB) sagði um flutning þessa frv., vil ég taka það fram, að ég gerði tilraun til að ná í hann í sambandi við flutning þessa máls, en tókst ekki á þeim tíma, sem til stefnu var, þar sem ráðh. lagði ríka áherzlu á, að málinu yrði hraðað. Ég lít svo á, að það sé aðeins formsatriði, að n. flytji þetta mál, en að sjálfsögðu hafa allir nm. óbundnar hendur um afstöðu sína til málsins. Ég hef heldur ekkert á móti því, að n. taki málið til athugunar, ef þess verður óskað, en læt það að öðru leyti algerlega á vald d., hvort hún óskar þess.