03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

204. mál, einkasala á tóbaki

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. fjmrh. þurfti að víkja af fundi, og þess vegna vil ég taka það fram, að svo sem ég hygg, að báðum þessum þm., sem hafa gert aths., sé ljóst, þá er það einmitt þessa dagana í samningum milli flokka, hvernig eigi að brúa það bil, sem er á milli gjalda og tekna í fjárlfrv., og hygg ég, að þeim sé kunnugt, að þeim samningum er ekki lokið enn þá. En þetta mál er sérstaks eðlis, vegna þess að taka þarf snögga ákvörðun um það, hvort þennan sérstaka skatt á að leggja á eða ekki. Ef það dregst, verður það til þess, að annaðhvort verður að stöðva sölu á þeirri vöru, sem hér um ræðir, með öllu eða menn geta hamstrað hana á óeðlilegan hátt þessa daga fyrir lægra verð, en aðrir. Mér skilst, hvað snertir heildarafgreiðslu þess mikla máls, hvernig eigi að koma saman fjárl., að menn séu sammála um, að eftir atvikum sé þetta ekki óeðlilegur skattstofn. En ég get tekið undir það, að ef svo vel færi, að verulega drægi úr áfengis- og tóbaksnautn, mundi ríkið þurfa aðrar tekjur en þessar, en mín skoðun er sú, að ef menn hættu þeirri notkun, mundi efnahagur þeirra batna svo mikið, að þeim væri siður en svo ofvaxið að standa undir samsvarandi tekjum til ríkissjóðs, heldur yrðu þeir hæfir til að standa undir eðlilegum gjöldum, svo að það þarf ekki að vera áhyggjuefni út af fyrir sig.