03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

204. mál, einkasala á tóbaki

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er upplýst af hæstv. dómsmrh., að ríkisstj. sé að vinna að því að koma endum fjárl. saman. Þetta er einn liður þeirrar starfsemi, en ekki er séð fyrir endann á því. Form. fjvn. hefur einnig upplýst, að fjvn. geti ekki gefið upplýsingar um, hvaða heildarlausn verði á því að koma endum fjárl. saman.

Það gladdi mig að heyra, að hæstv. dómsmrh. er sannfærður um það, að ef þessi hækkun verður á tóbaksvörum, verði það til þess að draga úr neyzlu tóbaks og það muni aftur verða til að bæta efnahag þjóðfélagsþegnanna, svo að þeir megni að taka á sig skatta í annarri mynd til þess að jafna ríkissjóði hallann af samdrætti á nautnavörusölu. En í beinu áframhaldi af þessu mætti draga þá ályktun, að með því að taka fyrir tóbaks- og áfengissölu, væri viss vegur að bæta svo efnahag þegnanna, að þeir gætu bætt ríkissjóði þann fjárhagslega skaða, sem hann yrði fyrir af því að minnka þessa starfsemi. Ef þetta er sannfæring hæstv. ráðh., þá ætti í staðinn fyrir þetta frv. að koma fram frv., sem bannaði tóbaks- og áfengissölu, og ætti það að bæta efnahag skattþegnanna svo, að þeir gætu borið skatta með öðru skynsamlegra ráði en þessu, um leið og þeir auka heilbrigði sína.