03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

204. mál, einkasala á tóbaki

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að óska eftir svolítið nánari upplýsingum, en mér virðist koma fram í frv. og framsöguræðu hæstv. fjmrh., um það, hvaða fyrirætlanir ríkisstj. hefur í sambandi við þær auknu álögur á tóbaksvörur, sem þetta frv. fjallar um. Í núgildandi l. eru ákvæði um, að hámarksálagning hjá tóbakseinkasölunni sé miðuð við 250%, en nú er þetta hækkað upp í 350%, þ.e.a.s. hámarkið er hækkað um 40%. Nú langar mig til að vita, hvort það er ætlun ríkisstj. að hækka tóbaksvörur yfirleitt um þessi 40%, eins og skilja mætti af þessu frv., eða hvort þetta er aðeins á nokkrum tegundum og þá á hvaða tegundum þessi hækkun á að koma fram. Þessi málsgr. er sem sé þannig orðuð, að álagningin skuli vera þetta, frá 10–350% af hundraði, og það þýðir, að á einhverjar tóbaksvörur á að leggja 10% og á einhverjar ekki minna en 350%.