03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

204. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég lýsti því áðan fyrir hv. 6. landsk. (StgrA), að í upphaflegu l., sem sett voru 1931, er nákvæmlega sama orðalag haft. Í l. nr. 58 frá þeim tíma stendur í 8. gr.: „Tóbakseinkasalan skal“ o.s.frv. Síðan hefur þessu ákvæði verið þráfaldlega breytt, en hv. Alþ. hefur aldrei séð ástæðu til að breyta þessu orðalagi, en þetta breytist með nýjum mönnum og nú kemur hv. 6. landsk., sem búinn er að vera hér í nokkur ár; en þó ekki mjög lengi, og vill gera það að villu, sem Alþ. samþ. 1931. Mér finnst till. með öllu óþörf, því að þetta er framkvæmt, eins og hér segir, af tóbakseinkasölunni og haldið sér innan þess ramma og einnig ætlazt til að halda sér innan ramma frv. Ég sé því ekki að þessi till. sé annað en — mér liggur við að segja merkilegheit.

Hv. þm. Barð. (GJ) spurði, hvernig því væri háttað með það tóbak, sem lægi hjá smásölum, þegar verðið hækkaði. Ég skal upplýsa, að það er alls ekki leyfilegt að selja það dýrar, þó að tóbakseinkasalan hækki hjá sér, fyrr en gamlar birgðir eru þrotnar, og hefur slíkt alltaf verið bannað, og mun verðlagseftirlitið líta eftir því. Ég mun fara fram á, að verðlagsstjóri láti verðlagseftirlitið úti á landi líta eftir, að gamlar birgðir verði ekki heldur hækkaðar þar, því að það er, eins og ég sagði áðan, algerlega óleyfilegt.